140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

frumbyggjaveiðar á hval.

454. mál
[16:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skal játa að ég hef ekki átt þess kost að ræða þessi tilteknu ummæli við þann sem þau lét falla eða leita eftir skýringum á því sérstaklega. Mér býður í grun að málið sé þannig vaxið að af Íslands hálfu hefur fyrst og fremst verið lögð á það áhersla að hvalveiðar séu tvenns konar, þ.e. annars vegar þær sem geta talist sjálfbærar og hinar sem eru það þá ekki. Við höfum fyrst og fremst byggt á því og ekki nálgast málin út frá því að við stunduðum að einhverju leyti frumbyggjaveiðar og að öðru leyti atvinnuveiðar. Við höfum litið á hvalveiðar okkar sem einsleitar í þeim skilningi að þær þurfi að uppfylla kröfur um að vera sjálfbærar og ekki gert þar greinarmun á. Persónulega sé ég ekki ástæðu til þess. Þrátt fyrir að þetta hafi verið okkar nálgun, sem var reyndar talsvert rædd á sínum tíma á níunda áratugnum, hvort við ættum að aðgreina veiðar minni skipa frá ströndinni og svo veiðar á stórhval á stærri skipum, þá varð það ekki niðurstaðan eins og kunnugt er.

Ég sé ekki að við höfum ástæðu til að leggjast gegn því að því marki sem það er viðurkennt að um frumbyggja á ákveðnum stöðum gildi sérstaða. Hún er vissulega til staðar í þeim skilningi sem hv. fyrirspyrjandi vék hér að. Ef ég veit rétt vísa Grænlendingar til þess talsvert að þeirra staða sé slík að þeir stundi í raun og veru ævafornar nytjar sem séu hluti af þeirra menningu og við höfum stutt þá eins og kunnugt er.

Hvað sem líður þessum nefndu ummælum og skýringum á þeim og hvort það er að einhverju leyti sá misskilningur á ferð að menn hafi lesið of mikið út úr þeim hvað varðar stefnu stjórnvalda eða hvort þarna var verið að vísa í það sem ég rakti, að Íslendingar hafa nálgast þetta svona, þ.e. fyrst og fremst viljað byggja á aðgreiningu í sjálfbærar veiðar og ekki sjálfbærar, skal ég ekki segja, en hvað mig sjálfan varðar sé ég ekki ástæðu til þess og hef aldrei gert í minni aðkomu að þessum málum í gegnum tíðina að setja sérstaklega hornin í það að frumbyggjar á ákveðnum svæðum fengju að njóta sérstöðu sinnar í þessum efnum.