140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

frumbyggjaveiðar á hval.

454. mál
[16:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi frumbyggjaveiðarnar. Það er alltaf álitamál hvernig þjóðir skipa þessum málum. Bandaríkjamenn til að mynda hafa stundað miklar hvalveiðar undir hatti frumbyggjaveiða og fá til þess heimildir hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu. Nýjasta tækni er í mörgum tilfellum notuð við þær veiðar, til dæmis hvernig hvalur er dreginn á land, hvernig hann er færður til með stórvirkum vinnutækjum og nútímatækni o.s.frv., þannig að það er spurning um hver þróunin verður þar.

Þetta er samhangandi umræða, eins og hv. málshefjandi kom inn á. Mig langar aðeins að gera athugasemd við fyrri umræðuna.

Hér var gefið í skyn að stórum hluta af afurðum væri hent í hafið. Það er alls ekki rétt. Stórhvalaveiðar Íslendinga eru með þeim hætti að allar afurðir koma á land og allar eru unnar. Ekkert er urðað og engu er hent í hafið í stórhvalaveiðum. Í hrefnuveiðum okkar er allt nýtanlegt kjöt tekið af skepnunni, spik og rengi. Það er allt saman skilið frá úti á hafi og beinagarði (Forseti hringir.) og innyflum hent í hafið. (Forseti hringir.) Það er það eina sem hent er í þessum veiðum.