140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

dagpeningagreiðslur.

486. mál
[17:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála því sem kemur fram í umræðunni um svokallaða vildarpunkta, þar fyndist mér eðlilegt að kaupandinn, þá ríkið, stofnanir, sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar, nyti þeirra í almennum kjörum við kaup á ferðunum en ekki þeir einstaklingar sem í hlut eiga og eru að sinna þessu vegna vinnu sinnar. Ég tek undir þetta.

Að öðru leyti held ég að við sem höfum tekið til máls í þessari umræðu séum alveg sammála. Það er eðlilegt að hafa sömu reglu fyrir alla starfsmenn. Síðan er gott og gilt að taka þessa umræðu um utanlandsferðir og samskipti okkar við útlönd því að þar eru miklir peningar í húfi. Það skiptir máli að við rækjum samskipti við útlönd vel og einangrumst ekki en við eigum jafnframt að vera gagnrýnin á hvar okkur ber niður og hvaða verkefnum við erum að sinna. Þá er ágætt að taka umræðu um það, það er kannski önnur saga en mjög mikilvæg saga.