140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

viðbrögð grunn- og framhaldsskóla við hegðunarvanda.

506. mál
[17:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra. Spurningarnar eru tvær og hljóða svona:

1. Eru til samræmdar leiðbeiningar fyrir grunn- og framhaldsskóla um hvernig eigi að taka á því þegar ungmenni eiga við hegðunarvanda að stríða?

2. Eru þess dæmi að grunn- og framhaldsskólar taki með mismunandi hætti á sambærilegum málum sem tengjast hegðunarvanda, svo sem að sumir vísi nemendum úr skóla en aðrir ekki?

Hvatinn að þessari fyrirspurn er sá að seinni hlutann í janúar fór ég að skoða mál sem tengjast börnum og ungmennum sem lenda í vanda. Þau eru flest mjög duglegir og góðir krakkar sem þó hafa lent í einhvers konar vanda í skólakerfinu eða annars staðar. Ég fór meðal annars á Stuðla sem er meðferðarstöð fyrir unglinga til að kynna mér þá starfsemi sem þar fer fram. Hún er talsvert umfangsmeiri en ég hafði gert mér grein fyrir, mjög góð starfsemi. Þar fá börn meðferð ef á þarf að halda, þar er gott og öflugt starfsfólk og mér sýndist vel búið að börnum og ungmennum á þeim stað. Ég ræddi við starfsfólkið þar og hef rætt við fleiri sem tengjast þessum málum og því vil ég spyrja út í þessi atriði. Eins og ég skil það eru nokkur dæmi þess, þau eru að minnsta kosti það mörg að fólk sem sinnir þessum börnum hefur áhyggjur, að skólar taka ekki eins á þessum málum, þ.e. sum börn sem lenda í einhvers konar vanda í skólanum, oft hegðunarvanda, eru rekin nánast umsvifalaust úr skólanum en önnur ekki, fá séns og standa sig. Þau sem eru rekin lenda oft í miklum vanda, eiga að fá einhverja forfallakennslu skilst mér en stundum er misbrestur á því og þau flosna jafnvel upp úr skólanum.

Ég gat heyrt það á sérfræðingum sem hlynna að þessum börnum að það var það mikill misbrestur á þessu að þeir höfðu áhyggjur. Ég tel að ef svo er þurfi ráðuneytið að skoða þetta sérstaklega og best væri ef reglur væru samræmdar þannig að menn væru nokkurn veginn með sama takt á milli skóla í þessum málum og að sem flestir krakkar fengju séns, þó að þau hafi eitthvað gert af sér sé þeim ekki vísað úr skóla.