140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

viðbrögð grunn- og framhaldsskóla við hegðunarvanda.

506. mál
[17:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en tek undir að ég held að það sé full þörf á þessum leiðbeinandi reglum, eins og ég nefndi áðan, til að skólarnir hafi þá einhvern ramma sem þeir geta nýtt sér.

Ég ítreka líka, af því að hér hefur verið rætt um að þessi mál geti verið flókin og erfið, að hugmynd okkar á bak við þessa lagagrein og reglugerðina er að hún einblíni ekki á einstaklinginn heldur að það sé ábyrgð skólanna að byggja jákvætt skólasamfélag, að jákvæður skólabragur sé hafður að leiðarljósi þannig að við reynum að sjálfsögðu að leysa flest mál innan skólanna. Það á ekki að leita að vandamálunum endilega heldur byggja upp þetta jákvæða samfélag. Það leysir hins vegar ekki öll mál og þess vegna er þörf á reglum þegar málin koma upp. Meginleiðarljósið á að vera að sem flestum nemendum geti liðið vel í skólanum og að við getum auðvitað verið ánægð með það þegar við horfum á íslenska skólakerfið borið saman við mörg önnur kerfi í Evrópu. Ég hlustaði til að mynda á mikinn sérfræðing í menntavísindum frá University College í London sem sagði: Íslendingar geta að minnsta kosti verið glaðir með að þeir standa tiltölulega vel með það að börnunum líður vel í skólunum ef við berum okkur til dæmis saman við Bretland. Ég held að þetta sé nokkuð sem við getum bæði verið ánægð með árangur í en að sjálfsögðu má gera betur og ég vona að þessar reglur eigi eftir að nýtast til þess.