140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

fækkun refs og minks.

247. mál
[17:30]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Varðandi stjórnsýslulega stöðu málaflokksins er það svo að ábyrgð á fækkun refs og minks er á höndum sveitarfélaga samkvæmt núgildandi lögum. Það kemur að mínu mati vel til greina að efla stöðu þeirra og hlutverk í þeim málum. Eins og lögunum er fyrir komið núna styður ríkisvaldið veiðar á ref og mink fjárhagslega samkvæmt heimildarákvæði, og Umhverfisstofnun safnar upplýsingum um veiðarnar til að halda miðlægri yfirsýn yfir þróunina, þó með þeim fyrirvörum sem ég nefndi áðan og þeim vanda sem tegundirnar sjálfar færa okkur með lífsmáta sínum.

Hvað sem yrði með breytt fyrirkomulag veiðanna í sjálfu sér, hvort þær yrðu meira á hendi ríkisins eða í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, verður áfram mjög æskilegt að ríkið hafi heildaryfirlit yfir stofnstærð refa og minka á landinu og veiðar á þeim. Ég vil þá nefna aftur mikilvægt verkefni Páls Hersteinssonar og ekki síður vaxandi hlutverk Melrakkaseturs sem ég hef miklar væntingar til og held að skipti miklu máli, bæði í byggðalegu tilliti og ekki síður vegna staðsetningar setursins, til að auka og bæta þekkingu okkar á íslenska refastofninum.

Ef farið verður í fleiri svæðisbundin verkefni eins og útrýmingarátakið sem ég nefndi áðan varðandi mink er æskilegt að einhver aðili, svo sem Umhverfisstofnun eða náttúrustofurnar, hafi samræmingar- eða ráðgjafarhlutverk. Það er auðvitað hárrétt að þetta er erfitt fyrir stór en fámenn sveitarfélög eins og hér hefur verið nefnt, en við í umhverfisráðuneytinu teljum að tilraunaverkefni um svæðisbundna útrýmingu eins og á Snæfellsnesi og í Eyjafirði hafi verið tilraunasveitarfélagaverkefni. Ég vænti þess að sjá á næstu vikum lokaniðurstöðu þess verkefnis og þá væntanlega tillögu umsjónarnefndarinnar um möguleg næstu skref í ljósi þess árangurs sem þá mun liggja fyrir.