140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

heimilissorp.

248. mál
[17:36]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga umhverfismáli sem eru sorp- og flokkunar- og endurvinnslumálin. Sumir hafa haldið því fram í okkar iðnvædda heimshluta að skilningur á því að sorp er verðmæti sé kannski mikilvægasta hugarfarsbreytingin sem við stöndum frammi fyrir, að átta okkur á því að vel flokkað sorp er hráefni í nýja framleiðslu. Við eigum dálítið í land með það. Fyrsta skrefið er það sem hv. þingmaður vekur máls á hér sem er aukinn skilningur á mikilvægi sorpflokkunar til að byrja með.

Í núverandi lögum og reglugerðum um úrgang eru ekki samræmdar reglur um flokkun heimilisúrgangs. Sveitarfélög skulu ákveða fyrirkomulag söfnunar heimilisúrgangs og vera ábyrg fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi úrgangs frá öllum heimilum á viðkomandi svæðum. Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs getur sveitarstjórn sett sveitarfélaginu sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðunum sem settar eru samkvæmt þeim. Í slíkri samþykkt er heimilt að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang og sambærileg atriði og mörg sveitarfélög hafa nýtt sér þessa lagaheimild.

Lög og reglugerðir um úrgang setja fram töluleg markmið um söfnun, flokkun og endurnýtingu lífræns heimilis- og rekstrarúrgangs, um umbúðir og umbúðaúrgang, meðhöndlun úr sér genginna ökutækja og söfnun og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs og rafhlaðna og rafgeyma. Sveitarfélög skulu í sínum svæðisáætlunum gera grein fyrir því hvernig þessum markmiðum verði náð, leiðum til að draga úr myndun úrgangs, endurnota eða endurnýta úrgang og förgunarleyfum. Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækjaúrgangs sem og rafhlaðna og rafgeyma bera ábyrgð á að ná markmiðum varðandi þá úrgangsflokka sérstaklega.

Umhverfisráðuneytið hefur hins vegar nú óskað eftir tillögum og ábendingum frá almenningi á vefnum og hagsmunaaðilum vegna landsáætlunar um úrgang fyrir árin 2012–2023, en gerð slíkrar áætlunar stendur yfir núna í fyrsta sinn. Áætlunin mun meðal annars geyma stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum. Landsáætlunin tekur til allrar meðhöndlunar úrgangs, hvort sem um er að ræða hvernig auðvelda eigi almenningi flokkun, hvernig standa skuli að endurvinnslu, hvernig bæta skuli nýtingu hráefna eða hvernig skuli koma í veg fyrir myndun úrgangs og þar með urðun svo nokkuð sé nefnt. Þannig getur áætlunin kveðið á um hvort gera eigi almenningi kleift að skila flokkuðum úrgangi í tunnu við hvert heimili eða jafnvel í næstu verslun, hvort taka eigi upp skilagjald á fleiri úrgangsflokkum en einnota drykkjarvöruumbúðum og bifreiðum, hvort banna eigi notkun plastpoka og hvort hægt sé að draga úr matarúrgangi með einhverjum tilteknum aðgerðum.

Samhliða þessari landsáætlun, sem ég hef miklar væntingar til, vinnur umhverfisráðuneytið að innleiðingu úrgangstilskipunar í íslenskt lagaumhverfi. Tilskipunin setur meðal annars viðmið um hvenær úrgangur hættir að vera úrgangur og verður að hráefni eins og ég vék að áðan og hvernig skuli greina milli úrgangs og aukaafurða. Þá kveður tilskipunin á um úrgangsmeðhöndlun, svo sem að hún skuli hvorki stofna heilsu manna í hættu né skaða umhverfið. Einkum er þá verið að tala um vatn, loft og jarðveg. Tilskipunin byggir á meginreglum um mengunarbótaregluna og framleiðendaábyrgð. Þá kveður hún á um að gerð sé áætlun um meðhöndlun úrgangs og hvernig koma eigi í veg fyrir myndun hans.

Landsáætlun um úrgang verður send út til kynningar þegar drög að henni liggja fyrir á fyrri hluta þessa árs og tekur þá við lögboðið sex vikna umsagnarferli og mér er bæði ljúft og skylt að halda þingmanninum sérstaklega upplýstum um það þegar þau drög liggja fyrir á vef ráðuneytisins.

Varðandi hversu mörg sveitarfélög hafi tekið upp flokkun þá liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um það en Umhverfisstofnun leitaði til Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna þessarar fyrirspurnar og samkvæmt upplýsingum sambandsins er talið að einhver heimaflokkun sé í boði hjá um 30% sveitarfélaga í landinu. Gámastöðvar þar sem almenningi er gefinn kostur á að skila flokkuðum úrgangi endurgjaldslaust eru til taks í meiri hluta þeirra sveitarfélaga sem sambandið hefur fengið upplýsingar frá.

Varðandi sparnað samfélagsins liggur ekki fyrir mat á því hver heildarávinningur yrði af því fyrir samfélagið að taka upp flokkun alls heimilisúrgangs. Það er náttúrlega partur af grænu ríkisbókhaldi ef svo má segja ef við héldum upplýsingum saman um þetta. Förgun úrgangs verður þó sífellt dýrari með auknum umhverfiskröfum til þeirra förgunarstaða sem nú eru starfræktir og það að draga úr magni þess úrgangs sem fer til förgunar mun því örugglega leiða til sparnaðar þegar til lengri tíma er litið, bæði til beins fjárhagsleg sparnaðar og aukins ávinnings fyrir heilsu og umhverfi. Þetta er náttúrlega sparnaður til lengri framtíðar. Endurnýting og endurvinnsla skapar líka ný störf og ný tækifæri og mörg Evrópuríki eru að stíga mjög metnaðarfull skref í þá veru að auka einmitt nýsköpun í tengslum við endurvinnslu og endurnýtingu.