140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

heimilissorp.

248. mál
[17:41]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég er með stutta fyrirspurn varðandi sorpmál sem ég heyrði núna í kjördæmavikunni á fundi í Efri-Vík sunnan Kirkjubæjarklausturs þar sem ég hitti sveitarstjórann og hún gekk út á sorpmál á Klaustri þar sem er brennsla. Mér skilst að þess hafi verið krafist að henni yrði lokað og að fundin verði önnur lausn. Mér skilst að sú lausn sé að urða sorpið einhvers staðar á öðru svæði ásamt sorpi frá Vík í Mýrdal og fleiri stöðum að mig minnir. Að mati alla vega sveitarstjórans á Kirkjubæjarklaustri væri það verri umhverfislegur kostur en að halda áfram að brenna því að mér skilst að mælingar hafi sýnt að það komi mjög lítil mengun frá brennslunni þar.

Ég vildi inna hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvort hægt sé að endurskoða þessi mál þannig að hægt sé að brenna áfram sorp á Kirkjubæjarklaustri eða hvort mælingarnar séu þannig að slíkt sé ekki hægt. Er hægt að skoða þetta mál eitthvað betur?