140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

heimilissorp.

248. mál
[17:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem að mínu viti er brýn. Við megum ekki setja þetta málefni í ruslflokk.

Það er athyglisvert að einungis 30% sveitarfélaga hér á landi stunda flokkun á heimilissorpi. Sem gamall fréttamaður hlýt ég að hnjóta um þessa tölulegu staðreynd og þar með erum við miklir eftirbátar annarra þjóða í þessu efni.

Ég þakka jafnframt innlegg hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur í þessa umræðu. Ég vek athygli á því að það er ekkert samræmi á milli þess hvernig við Íslendingar til dæmis urðum eða komum fyrir kattarnef dýrahræjum og úrgangi úr sláturhúsum. Á sumum stöðum er slíkt grafið í jörðu með hugsanlegum afleiðingum hvað varðar miltisbrand í framtíðinni en annars staðar er þetta brennt. Virðast því ekki gilda samræmdar reglur um hvernig við eyðum dýraleifum, hræjum og úrgangi úr sláturhúsum. En þegar kemur að hinu almenna heimilissorpi hljótum við sem þingmenn og þjóð að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort við viljum hafa þetta þannig inn í framtíðina að sveitarfélög, með fullri virðingu fyrir þeim, sé gefið sjálfdæmi í þessum efnum eða hvort við eigum sem ríkisvald, sem stjórnvald, sem löggjafarvald, að búa til áætlun um að öll sveitarfélög hafi tekið upp flokkun heimilissorps innan ákveðins tíma.

Mig langar jafnframt að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún vilji beita sér fyrir áætlun í þá veru vegna þess að það er algjörlega ólíðandi að mínu mati að einungis þriðjungur sveitarfélaga hér á landi, og varla það, á árinu 2012 sinni eðlilegri flokkun heimilissorps sem er í sjálfu sér verðmætasköpun.