140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

mengunarmælingar í Skutulsfirði.

449. mál
[17:50]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar sem ættu að vera nokkuð dekkandi, ef svo má að orði komast, þegar við, þeir þrír ráðherrar sem hv. þingmaður nefnd áðan höfum svarað þessu hvert fyrir sig, enda var hér um að ræða mál sem varðaði margs konar hagsmuni eins og hv. þingmaður dró ágætlega fram.

Varðandi niðurstöðu jarðvegsmælinga í nágrenni sorpbrennslustöðvarinnar var það svo að Umhverfisstofnun ákvað í febrúar 2011 að kanna styrk díoxína í jarðvegi til að fá skýra mynd af stöðu mála um losun efnanna út í umhverfið á Íslandi. Slíkar upplýsingar lágu ekki fyrir og var því talið mikilvægt að safna slíkum gögnum. Forsaga málsins er sú að díoxín mældist yfir mörkum í lok desember 2010 í mjólk í Skutulsfirði í nágrenni við sorpbrennsluna Funa. Þá var ákveðið að taka sýni í nágrenni við allar hugsanlegar uppsprettur díoxína, svo sem sorpbrennslna, stóriðju og áramótabrenna. Sýni voru tekin eftir að frost fóru úr jörðu og send utan til greiningar, en tekin voru 50 sýni af jarðvegi út um allt land. Einnig var tekið sýni úr sjávarseti í Skutulsfirði og úr sjávarseti í Álftafirði til viðmiðunar. Sýnatakan fór fram seinni hluta maímánaðar og bárust niðurstöðurnar í júlí sama ár.

Við mat á niðurstöðum úr mælingum á díoxínum í jarðvegi studdist Umhverfisstofnun við þýsk umhverfismörk þar sem ekki eru til umhverfismörk í íslenskum reglugerðum. Lægstu mörk eru við 5 píkógrömm í hverju grammi, en hver slík mælieining jafngildir 10 -12 g, þ.e. 1 pg/g jafngildir því að það mælist 1 milligramm í hverjum 1.000 tonnum af jarðvegi.

Þegar díoxín mælist á bilinu 5–40 slíkar einingar er brugðist við með því að finna uppsprettu losunarinnar og takmarka losun frá henni, en á þessu bili er ekki talin þörf á því að takmarka nýtingu eða skipta um jarðveg. Í Engidal í Skutulsfirði voru tekin átta sýni úr jarðvegi og eitt sýni var tekið af sjávarseti á botni fjarðarins á fjöru út frá Funa.

Í þremur jarðvegssýnum af átta í nágrenni við sorpbrennsluna Funa mældist styrkur díoxína í jarðvegi rétt við lægstu aðgerðamörk sem eru 5 pg/g, en í hinum sýnunum var styrkur töluvert undir þeim mörkum. Að mati Umhverfisstofnunar var hvorki ástæða til að grípa til aðgerða þar né takmarka landnotkun þar sem sorpbrennslunni Funa hafði þegar verið lokað og því ætti ekki að vera um meiri uppsöfnun á díoxínum að ræða.

Þar sem styrkur díoxína var mældur í jarðvegi undir slegnu túni og borið saman við styrk í jarðvegi í afgirtum reit við hliðina kom í ljós að magn díoxína í jarðvegi undir túnunum var mun lægra. Umhverfisstofnun telur líklegt að ákomin mengun frá sorpbrennslu hafi verið fjarlægð með heyi og má áætla að díoxínmengun sem mældist í heysýnum skýri að hluta lægri styrk í jarðvegi.

Hæsti styrkur díoxína í nágrenni sorpbrennslunnar Funa mældist í umræddu sjávarseti í Skutulsfirði, eða 33 pg/g. Sú niðurstaða kemur ekki á óvart þar sem skolvatn úr vothreinsibúnaði sem var notaður til mengunarvarna auk þurrhreinsibúnaðar í stöðinni var leitt til sjávar. Ekki eru til nein mörk fyrir díoxín í seti, en að mati Umhverfisstofnunar var ekki talin ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða þar sem starfsemi sorpbrennslunnar Funa hafði verið hætt eins og áður kom fram.

Sýni sem tekin voru í nágrenni við stóriðju voru öll við eðlileg viðmiðunarmörk. Hærri gildi fundust á tveimur stöðum í nágrenni við tvö brennustæði, þ.e. í Herjólfsdal, 5,5 pg/g og í Skutulsfirði, 13,5 pg/g. Í Skutulsfirði er um að ræða tvær uppsprettur díoxína og hefur losun nú verið stöðvuð frá sorpbrennslunni. Við aflagðar sorpbrennslur mældist hækkað gildi díoxína í jarðvegi í nágrenni við aflagða sorpbrennslu á Skarfaskeri í Hnífsdal, eða 12,1 pg/g.

Hv. þingmaður spyr hvort það liggi fyrir að mengunin gæti hafa stafað af öðrum orsökum og hvort hægt sé að útiloka að svo sé. Því er til að svara að díoxín myndast sem aukaafurð í ýmsum iðnaðar- og varmaferlum, svo og við skógarelda og eldgos. Einnig hafa fundist ensím sem hvata myndun díoxína úr klórfenólum. Uppsprettur af mannavöldum eru margfalt stærri.

Á Íslandi hefur brennsla sorps verið helsta uppspretta díoxína í gegnum tíðina. Þar eru áramótabrennur fyrri tíma taldar með þar sem lítið eftirlit var með því hvaða eldsmat var bætt á kestina. Með þetta í huga má leiða rök að því að uppsprettur í og við Skutulsfjörð hafi verið þrjár, þ.e. Funi, áramótabrennur og Skarfasker.

Hæstu gildi díoxíns í jarðvegi sem mældust í rannsókninni voru í nágrenni áramótabrennustæðis í Skutulsfirði og í nágrenni við aflagða sorpbrennslustöð á Skarfaskeri í Hnífsdal, ekki í næsta nágrenni sorpbrennslustöðvarinnar Funa. Ekki er hægt að fullyrða um áhrif þessara uppsprettna á einstök mæligildi, en ætla má að hækkuð gildi sem mældust í jarðvegi í nágrenni Funa megi að stórum hluta rekja til starfsemi hennar, en hækkuð gildi í brennustæði í Skutulsfirði megi hins vegar að langstærstum hluta rekja til mengunar frá áramótabrennum og hækkað gildi í nágrenni við gamla brennslu á Skarfaskeri megi væntanlega rekja til þeirrar brennslu.

Af jarðvegssýnum frá nágrenni sorpbrennslunnar Funa má draga þá ályktun að díoxínmengun frá Funa hafi í óverulegu magni borist langar leiðir. (Forseti hringir.)