140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

mengunarmælingar í Skutulsfirði.

449. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skilmerkileg svör við fyrirspurnum mínum. Ástæðan fyrir því að ég lagði af stað með þessar fyrirspurnir til hæstv. þriggja ráðherra var að hér var um að ræða mál sem varðaði mjög mikið, bæði hag íbúa Ísafjarðarbæjar og auðvitað líka orðstír bæjarfélagsins. Mér fannst í þeirri umræðu sem þá fór fram að vegið væri mjög harkalega að orðstír sveitarfélagsins Ísafjarðarbæjar og ástæða væri þess vegna til að reyna að varpa betra ljósi á þetta mál allt. Nú skilur maður vel að þegar mál af þessu tagi koma upp vilja auðvitað allir vera mjög varkárir og fara fram af mikilli gætni og láta íbúana og aðra sem þarna eru njóta alls vafa í þessum efnum, þannig að menn vilja vanda sig í allri þeirri vinnu. Hins vegar er smám saman að dragast upp ákveðin mynd. Þegar við ræðum bara þetta tiltekna mál sem ég spyr hæstv. umhverfisráðherra um hér, sýnist mér niðurstaðan vera sú að hvergi nokkurs staðar í Skutulsfirðinum, a.m.k. ekki í nágrenni við Funa, hafi mælst mengun fyrir ofan viðmiðunargildi. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni að heyra. Sú mengun sem mældist hæst stafaði annars vegar frá gömlu brennslunni á Skarfaskeri, sem var aflögð vegna þess að menn vissu að hún var úrelt og sorpbrennslan Funi var tekin í notkun, hins vegar var þetta háa gildi í tengslum við áramótabrennurnar.

Nú held ég að ráð væri að menn settust niður og reyndu að læra af þessari reynslu og viðbrögðunum við því sem menn óttuðust að væri þessi mikla mengun frá Funa og síðan hinu að við sjáum að mengunarvaldarnir virðast vera miklu frekar aðrir, þ.e. gömul, aflögð (Forseti hringir.) sorpbrennslustöð á Skarfaskeri og síðan áramótabrennurnar.