140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 6. febrúar sl. ályktaði utanríkisnefnd Evrópusambandsins með nokkuð sérstökum hætti þar sem það var að fjalla um íslensk innanríkismál. Það er greinilegt að eftir að aðildarumsókn okkar hafði verið send þangað út að Evrópusambandið telur sig nú í stöðu til að tala við okkur í eins konar tilskipunarstíl, nú séum við orðin umsóknarþjóð og þess vegna sé kominn tími til að kenna okkur ákveðna lexíu.

Enginn vafi er á að hér er um að ræða umtalsverð inngrip í íslenska innanríkispólitík. Þarna er til dæmis verið að leggja dóm á uppstokkun í ríkisstjórninni og er sagt sem svo að það muni leiða til þess að stjórnvöld verði samningsliprari. Nú veit ég ekki hvort verið er að vísa til þess að úr ríkisstjórninni viku annars vegar hæstv. ráðherra Jón Bjarnason og hins vegar hæstv. ráðherra Árni Páll Árnason.

Í annan stað taka menn til við í þessari ályktun að ráðleggja okkur um endurskipulagningu atvinnulífsins, svo sem orkufyrirtækjanna, flugstarfseminnar, flutningastarfseminnar og sjávarútvegsins þar sem sérstaklega er vakin athygli á að það ríki bann við beinni fjárfestingu erlendra aðila. Þá er talað um að mjög mikilvægt sé að gerðar séu tilteknar breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni þannig að við getum farið inn í sameiginlega landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins jafnskjótt og ákvörðun hefur verið tekin um aðild okkar að Evrópusambandinu.

Þetta er ákaflega sérkennileg ályktun svo ekki sé meira sagt. Hér er eins og kennari sé að tala við nemanda eða öllu heldur húsbóndi við hjú sín, eins konar tilskipunarstíll þar sem reynt er að kenna okkur og siða okkur og segja okkur hvernig við eigum að haga okkur. Þess vegna vil ég ræða þessi mál við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, formann utanríkismálanefndar, og biðja hann um að leggja mat á þetta og með hvaða hætti íslensk stjórnvöld bregðist við. Telur hv. þingmaður ástæðu til þess að íslensk stjórnvöld bregðist við með formlegum hætti, sendi frá sér ályktun eða álit á þessum málum eða bregðist efnislega við þeim tilmælum og tilskipunum (Forseti hringir.) og nánast skipunum sem fram koma í þessari ályktun utanríkisnefndar Evrópusambandsins?