140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er býsna freistandi að fara aðeins yfir ræðu síðasta þingmanns sem hér talaði en ég ætla að reyna að eyða þeim litla tíma sem ég hef í annað. Ég verð þó að segja að ég veit ekki hvort við erum að fá sömu tölvupóstana, ég og hv. þingmaður, en ég verð að minnsta kosti ekki var við þessa gífurlegu bjartsýni hjá þeim fjölskyldum sem senda mér tölvupóst.

Mig langar hins vegar að gera aðeins að umtalsefni virðingu þingsins. Það er oft sem komið er upp í þennan ræðustól og í fjölmiðla og talað um virðingu Alþingis. Mig langar, frú forseti, að biðja forseta að huga vandlega að því hvort forseti geti gripið inn í það sem ég ætla að nefna hér.

Í gær urðum við vitni að því að hæstv. efnahags-, viðskipta-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra fór líklega yfir öll velsæmismörk og þau strik sem hafa verið dregin í sandinn í þinginu þegar hann sagði einum hv. þingmanni að þegja. Það hefur svo sem ýmislegt verið sagt í þessum sal en þetta held ég að sé alveg nýtt, að (Gripið fram í: … barnaleikur hjá því sem …) hér sé kallað fram í og mönnum sagt að þegja. Hæstv. utanríkisráðherra virðist skemmta sér yfir þessu og er kannski vanari ýmsu hér — hann kannast nú við það reyndar að hafa fengið spark í rassinn einhvern tíma yfir orðum sem hann lét vaða í þingsal og átti það eflaust skilið — en það er hins vegar spurning hvort forseti þingsins þurfi ekki að fara að grípa inn í og tala við ráðherra þessarar ríkisstjórnar um að þeir komi fram við þingið og þingmenn eins og þeim ber að gera.

Úr því að hæstv. utanríkisráðherra er að grípa fram í vil ég nefna það líka að auðvitað er það jafnmikil óvirðing og orð hæstv. efnahags-, viðskipta-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að hæstv. utanríkisráðherra skuli senda svör til þingmanna inn í þingið sem eru ekkert annað en hneyksli. (Gripið fram í.) Ef hæstv. utanríkisráðherra vill gera grín og skemmta sér einhvers staðar úti í bæ á hann bara að gera það í stað þess að gera það hér á kostnað þingmanna og í þinginu. En um virðingu þingsins, það er með ólíkindum að þeir sem tala mest um hana eru akkúrat þeir sem setja þingið mest niður með vinnubrögðum og með orðbragði eins og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, það er styttra að segja það, frú forseti, eins og sá ágæti maður hegðar sér í þinginu. (Forseti hringir.) Og ég held að forseti þingsins ætti að taka hv. formann Vinstri grænna á kné sér og rassskella hann.