140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Við þingmenn höfum stundum rætt að þessi liður, störf þingsins, sé kannski ekki sá liður sem skili okkur hvað mestu en við höfum tækifæri til að koma hér upp og ræða allt milli himins og jarðar. Þessi dagur í dag er gott dæmi um það, allt frá meðalaldri fiskiskipa yfir í bjartsýni jafnaðarmanna. (Utanrrh.: … ráðherra.) Ég verð að segja eins og er að oft verður maður dálítið undrandi á því hvernig stjórnarliðar geti komið hér upp og talið sig og ríkisstjórnina hafa bjargað hér öllu á meðan satt best að segja það er tilfinning fólksins í landinu að hér gangi ýmislegt nokkuð brösuglega. Þannig búa til að mynda 40% heimila ekki við sjálfbæran efnahag og efnahagur þess hóps fer sífellt versnandi, m.a. vegna skattpíningar á eldsneyti og hárra skatta almennt og alls kyns annars vandræðagangs sem ríkisstjórnin svo sannarlega stendur fyrir. Það hefur komið fram í svari við fyrirspurn, að ég held frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, að bara sá hluti lánanna sem hefur hækkað af völdum ríkisstjórnarinnar nemur 23 milljörðum, ef ég man rétt, bara sá hluti sem kemur beinlínis til vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um að hækka þjónustugjöld og skatta. (VigH: Velferðar…) Það þarf heilmikla bjartsýni til að sjá góðan árangur út úr því og gott að jafnaðarmenn hafa þá bjartsýni. Þeim veitir ekki af. En fólkið í landinu þarf fleira en bjartsýni. Ef við vitnum í menningarsöguna þá er það ekkert ósvipað því og þegar franska drottningin sagði fólkinu að fá sér bara kökur ef það hefði ekki efni á brauði. (Forseti hringir.) Fólk þarf að hafa til hnífs og skeiðar, það dugar ekki bjartsýnin ein.