140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í kjördæmavikunni funduðum við mörg hver víðs vegar um land. Eitt af því sem var mjög ofarlega í huga þeirra sem ég talaði við var verðtryggingin og leiðir til þess að afnema hana. Þegar verðtryggingunni var komið á á sínum tíma voru settar fram þrjár efnahagslegar forsendur fyrir því sem ég lít á að hafi verið neyðarráðstöfun við innleiðingu Ólafslaganna árið 1979 þegar ákveðið var að verðtryggja sparifé, lánsfé og laun. Verðbólgan hafði þá verið langtum meiri en í öðrum þróuðum ríkjum og mældist í tugum prósenta. Vextir voru ekki frjálsir sem kom í veg fyrir að fjármálastofnanir gætu brugðist við verðbólgunni. Það leiddi síðan nánast til hruns innlends lánsfjár samhliða óhóflegri erlendri skuldasöfnun.

Staðreyndin er hins vegar sú að engar af þeim efnahagslegu forsendum sem voru gefnar fyrir innleiðingu verðtryggingarinnar á sínum tíma standast í dag. Í dag ríkir vaxtafrelsi á Íslandi og hefur gert síðan 1986. Það varð í raun ekki jákvæð raunávöxtun á fjármagni á Íslandi fyrr en vaxtafrelsi var komið á. Það gerðist ekki með lögleiðingu verðtryggingar heldur með vaxtafrelsi. Fjármálastofnanir geta þannig í dag brugðist við verðbólgunni, það er til meira en nóg af innlendu lánsfjármagni hérna og verðbólga, þrátt fyrir að okkur þyki svo sem nóg um, er ekki langt umfram það sem þekkist í öðrum þróuðum ríkjum ef við lítum til sögunnar. Ég tel algjörlega víst að það sé forsenda fyrir því að afnema verðtrygginguna. Núna liggja fyrir samþykktir hjá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi um að leita leiða til að afnema verðtrygginguna. Ég get ekki tekið undir þau rök sem hafa komið fram um að þær hugmyndir sem hafa verið nefndar varðandi afnám hennar stangist á við stjórnarskrána og feli í sér (Forseti hringir.) afturvirkni. Það geta menn bara kynnt sér út frá sögunni; það hefur verið sett þak á hækkun verðbóta, vísitölunni hefur verið breytt og við höfum (Forseti hringir.) afnumið verðtryggingu á laun. Og það getum við líka gert á lánsfé. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)