140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar státum af trúfrelsi og tjáningarfrelsi. Þess vegna ber að harma að virðuleg bæjarstjórn, meiri hluti bæjarstjórnar á Akureyri, hefur komist að niðurstöðu, væntanlega út frá því að hafa verið slegin einhvers konar sýrlenskum vírus, og ráðist á opinberan starfsmann, venjulegan borgara, kennara á Akureyri, og rekið hann úr starfi. Þetta er alvarlegt mál sem er nýtt á Íslandi. Það er líka alvöruefni að þetta virðist vera eins konar samfylkingarárás því að sá sem stendur fyrir árásinni á kennarann, Snorra Óskarsson í Betel, er varaþingmaður Samfylkingarinnar og á sæti í skólaráði. Þetta mál hefur ekkert verið rætt í skólanum og er ekki vandamál þar en rætt á pólitískum vettvangi. Þetta er áhyggjuefni. (Gripið fram í: Hann á barn í skólanum.) Það hefur ekki verið rætt í skólanum. Það þýðir ekkert að tala um einhverjar persónulegar tilfinningar hér, hér er um að ræða mannréttindi, virðingu fyrir skoðanafrelsi og trúfrelsi á Íslandi. [Háreysti í þingsal.] Ef kennarar keyra ekki á skoðunum sínum í skólum heldur (Gripið fram í.) utan skóla er ekki hægt að sækja þá til saka. Það vita allir. Þetta er ofbeldi og valdníðsla.

Snorri Óskarsson er vinsæll og góður kennari og hefur verið til áratuga og hefur aldrei átt sökótt við þá skóla sem hann hefur starfað í, en hann hefur sínar skoðanir. Hann er kunnur predikari, kominn af hörkupredikurum, en Óskar Gíslason og Einar J. Gíslason í Betel, bróðir Óskars, voru einhverjir bestu ræðumenn á Íslandi á síðustu öld. (Gripið fram í: …ota fólki í dauðann.) Dauði er margs konar, dauði er ekki bara veraldlegur, hann er líka andlegur á margan hátt (Gripið fram í.) og menn skulu ekki vera að skilgreina hérna (Forseti hringir.) hvernig sá dauði gengur fyrir. Þetta er ofbeldi sem þarf að stöðva og við eigum ekki (Forseti hringir.) að elta hin nýju öfl víða um heim sem krefjast sérreglna fyrir sig og annarra fyrir aðra.