140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég er hættur að skilja þetta. Hér er lagt fyrir okkur gríðarlega mikið plagg og það er fullt af alls konar tillögum um aðskiljanlega hluti og nú segir hæstv. ráðherra að þetta sé bara umræðuplagg sem við eigum síðan að taka afstöðu til. Það er ekki þannig. Í þessu plaggi kemur fram mjög skýr stefna. Hæstv. ráðherra hlýtur að minnsta kosti að þurfa að skýra hana í einu andsvari og vera tilbúin að verja þá stefnumörkun eða þá að hverfa frá henni. Þetta er ekki bara eitthvert hlutlaust plagg sem við ræðum sisvona. Hér er verið að boða hækkun orkuverðs í landinu þannig að það nálgist orkuverð í Evrópu. Síðan höfum við tiltekna viðmiðun. Það eru meira að segja færð fyrir því rök í þessu plaggi, það er verið að reyna að sýna fram á að það sé ekki mjög skilvirkt gagnvart almenningi í landinu að hafa orkuverð svona lágt, að minnsta kosti í sumum tilvikum. Það eru með öðrum orðum færð fyrir því rök að ástæða sé til að hækka orkuverðið. Ég les það út úr þessum skrifum að þarna sé jafnvel boðuð 100% hækkun í það minnsta. (Forseti hringir.)

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherra að boða að hækka skuli raforkuverð jafnt til almennings, fyrirtækja og stóriðju?