140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfisráðherra segist fagna þessu plaggi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Fagnar ráðherrann líka þeim hugmyndum sem hér eru settar fram um að það megi hugsa sér að færa helminginn af þeim virkjunarkostum sem núna eru skráðir í biðflokk í þeirri rammaáætlun sem ríkisstjórnin liggur á yfir í nýtingarflokk?

Nauðsynlegt er að það komi hérna fram vegna þess að hér er ekki bara um að ræða einhvers konar sviðsmynd. Þessi hugmynd gengur síðan aftur mjög í þessari skýrslu og hún er notuð sem forsenda þegar verið er að reyna að reikna út aukna arðsemi sem við getum haft af virkjunarframkvæmdum í landinu og starfsemi Landsvirkjunar svo dæmi sé tekið.

Hér er sem sagt um það að ræða að hér læðast inn bara ágætlega og skynsamlega að mínu mati hugmyndir um að færa helminginn af þeim virkjunum sem nú eru skráðar í biðflokk og setja þær í nýtingarflokk. Er það það sem verið er að togast á um innan ríkisstjórnarinnar — nú vitum við að ágreiningur er um þessi mál — eða hver er skoðun hæstv. ráðherra á þeim (Forseti hringir.) hugmyndum að færa helming þeirra virkjunarkosta sem núna er skráðir í biðflokk inn í nýtingarflokk við afgreiðslu rammaáætlunar?