140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg eins og hæstv. ráðherra segir liggur að baki rammaáætlunar mikil og fagleg vinna sérfræðinga til margra ára. Markmiðin voru skýr sem sett voru í ríkisstjórnartíð þáverandi ríkisstjórnar árið 1999, sem setti þá vinnu af stað á þeim tíma um að fara að feta þá skynsamlegu leið nýtingar og verndunar.

Hæstv. ráðherra svaraði mér ekki um rammaáætlunina, hún svaraði því ekki hvenær við mættum eiga von á henni inn í þingið, hvort það gæti orðið í þessum mánuði.

Varðandi yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að ég sé að gera mikið úr þeirri friðun sem hefur átt sér stað á Íslandi, ég er bara alls ekkert á móti henni. Það getur vel verið að það megi friða víðar og meira en gert hefur verið, ég er alls ekkert á móti því að skoða það. En ég hef (Forseti hringir.) bent á það í allri þessari umræðu að það hefur engin þjóð gengið lengra í þeim efnum en við Íslendingar, að friða svo stóra hluta landsins eins og við höfum gert.