140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við hæstv. ráðherra höfum rætt áður um skyldu íslenskrar þjóðar gagnvart mannkyninu, þ.e. að virkja sem allra mest af hreinni orku í staðinn fyrir að framleiða ál í Kína og víðar með brennslu olíu og kola, sem er lífrænt eldsneyti og eykur hitnun jarðar.

Mig langar að spyrja um komandi kynslóðir: Er ekki betra fyrir komandi kynslóðir að virkja sem mest núna þannig að við séum búin að byggja upp eignir, verðmæti og sérstaklega menntun?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Gerir hún sér ekki grein fyrir hve íslensk náttúra er sterk? Hefur hún ekki komið á eyðibýli eða eyðistað 50 árum eftir að síðasti maðurinn fór þaðan? Það er eiginlega allt horfið. Ég hugsa að það tæki íslenska náttúru um 20–30 ár að eyða öllum ummerkjum um Kárahnjúkavirkjun ef henni er ekki haldið við. Ef Jökla brytist í gegnum stífluna er hún farin á nokkrum árum.