140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar ræðu. Ég vil í upphafi taka fram, þannig að það sé alveg á hreinu, að sú verndar- og nýtingaráætlun sem hér er fjallað um, og er líklega forsenda þess að við ræðum þetta plagg, var ekki fundin upp af þeirri ríkisstjórn sem nú situr, hún á sér lengri aðdraganda. Engu að síður er það mjög mikilvæg vinna og nauðsynleg að við reynum að fá botn í það með einhverjum hætti og í sem mestri sátt, það verður aldrei algjör sátt.

Hæstv. ráðherra talaði líka um ábyrgð og ég tek undir það að við þurfum að sýna ábyrgð. Við getum á einhverjum tímapunkti verið ósammála um hvar sú lína er dregin, hvar ábyrgðin liggur, og það verður bara að vera þannig.

Mig langar hins vegar að spyrja hæst. ráðherra út í orð hennar um sjálfbæra nýtingu, ég var ekki viss hvort ég skildi orð hennar rétt: Er ráðherrann þeirrar skoðunar að vatnsaflsvirkjanir og jarðhitavirkjanir séu ekki sjálfbærar?