140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:33]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að skilningur okkar á hugtakinu sjálfbærni sé sameiginlegur og það er gegnumgangandi í allri þessari umræðu, bæði um orkunýtingu og auðlindanýtingu, og eðli málsins samkvæmt, og það er útgangspunkturinn þegar rætt er um sjálfbærni, að ekki sé til neitt fyrirbæri sem er í sjálfu sér sjálfbært, heldur er það í raun þannig að fyrirbærið er nýtt með sjálfbærum eða ósjálfbærum hætti. Þannig getum við nýtt vatnsafl á sjálfbæran hátt en við getum líka gert það á ósjálfbæran hátt. Það snýst því um það hversu greitt við göngum, hvort við umgöngumst auðlindina með ágengum eða sjálfbærum hætti.

Við gætum til dæmis sagt að fiskveiðiauðlindin við Ísland sé ekki í sjálfu sér sjálfbær, við getum umgengist hana sjálfbært og við getum umgengist hana með ágengum hætti eða með rányrkju. Það sama á við hvort sem um er að ræða vatnsafl eða jarðvarma, eða þannig kýs ég að skilgreina hugtakið.