140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru kannski einmitt þessi síðustu orð hæstv. ráðherra sem gera umræðuna svolítið ruglingslega, þegar hæstv. ráðherra segir: Þannig kýs ég að skilja hugtakið sjálfbærni.

Hægt er að færa rök fyrir því að í þessum sal geti verið 63 skoðanir á því hvernig skilja beri hugtakið sjálfbærni. Tökum virkjanir eins og Búrfellsvirkjun eða Hellisheiðarvirkjun — eru þær sjálfbærar í huga ráðherra svo að maður spyrji bara beint út? Ef matið liggur í því hvort verið sé að ganga á jarðhitann sem er í Hellisheiðinni höfum við þá forsendu til að segja til um það hvort sú virkjun er sjálfbær eða ekki? Við sjáum það á orðræðu hér um magn upplýsinga í þessari skýrslu að sitt sýnist hverjum.