140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka starfandi iðnaðarráðherra fyrir þá skýrslu sem hér er lögð fram og jafnframt hæstv. iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttur sem ég þykist vita að er að hlusta á þessa umræðu og hún hefði að öllu jöfnu flutt þessa skýrslu ef hún væri ekki við það að fjölga Íslendingum aðeins meira svo að við nálgumst 320 þúsund eins og við erum að detta í.

En að öllu gamni slepptu vil ég segja, virðulegi forseti, að sú skýrsla sem hér er sett fram og lítur hér dagsins ljós, og á tilurð sína að rekja til vinnu sem hæstv. iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir hóf 18. ágúst 2009, er fyrirmyndarskýrsla, þó svo að maður sé kannski ekkert endilega sammála öllu því sem í henni er. Hér er um að ræða, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir nefndi, fyrirmyndarvinnu. Það er til fyrirmyndar að skýrslan komi til Alþingis, sé rædd og málið verði síðan unnið af iðnaðarráðherra til að klára það ef það gengur ekki til nefndar og verður lagt fram í lokin í formi þingsályktunartillögu um heildstæða orkustefnu sem fær stimplun Alþingis.

Jafnframt get ég ekki annað en minnst á það, virðulegi forseti, að rammaáætlun er vonandi við það að detta inn til þings. Vinna við hana hófst eftir stjórnarmyndun, eftir að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tóku við árið 2007 í maí. Þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson og þáverandi hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir settu í gang þá vinnu sem unnin hefur verið síðustu fjögur ár og settu í hana þann kraft sem lýsir sér meðal annars í því að nú er til heildstæð rammaáætlun sem hefur verið kynnt sem drög í umhverfismati áætlunar og kemur vonandi sem fyrst til þings.

Virðulegi forseti. Ég er ákaflega stoltur af þessari vinnu. Hún hefur verið unnin og leidd af jafnaðarmönnum á Alþingi og hér er sett fram stefna til framtíðar. Það hefur komið fram í ræðum nokkurra þingmanna hér að þeir eru mjög ánægðir með það plagg sem hér er komið fram. Í þessu skjali er í fyrsta sinn sett fram heildstæð orkustefna fyrir Ísland eins og áður hefur komið fram. Þetta er fyrirmyndarvinna sem við jafnaðarmenn getum verið ákaflega stolt af. Svona á að vinna hlutina. Það hefði auðvitað verið betra, virðulegi forseti, að rammaáætlunin hefði verið kláruð fyrr, en sú vinna hefur staðið núna, með misjafnlega miklum krafti og hléum, í samfellt 19 ár þó að mest hafi verið gert síðustu fjögur ár eins og ég gat um áðan.

Leiðarljósið í þessari skýrslu er sjálfbærni ásamt öðrum þáttum sem vikið er að hér eins og til dæmis því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis sem er mjög mikilvægur þáttur. Við Íslendingar eyddum um það bil 45 milljörðum af gjaldeyri okkar árið 2010 til að kaupa bensín, gasolíu og brennsluolíur. Það er ansi há upphæð. Jarðefnaeldsneyti er ekki óendanleg auðlind og við höfum gengið mikið á hana og eins og margir segja þá er ástæðan fyrir háu orkuverði er ekki bara sú að Kínverjar og Indverjar kaupa mikið af olíu, heldur einnig að við höfum verið að dæla upp úr hagkvæmustu lindunum og erum nú farin að nýta lindir sem eru miklu, miklu dýrari auk þess sem gerðar eru auðvitað miklu meiri kröfur nú en áður. Þess vegna er orkuverð, verð á olíu og bensíni, eins hátt og raun ber vitni á Íslandi, svo maður minnist nú ekki á blessaða krónuna sem er í sögulegum hæðum. Það kostar miklu meira nú en áður að flytja hvern lítra inn, þó að maður taki bara mið af genginu.

Þetta, virðulegi forseti, er sett í skýrsluna, í þessi drög, til að marka stefnu um það hvernig við getum dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis. Það mundi spara okkur dýrmætan gjaldeyri ef við flyttum ekki eins mikið inn af þessu eldsneyti og færðum okkur yfir í annað.

Virðulegi forseti. Ég ætla að snúa mér að kafla í skýrslunni sem heitir Rafhitun húsa. Þar er fjallað um húshitun á svokölluðum köldum svæðum, en tæplega 10% þjóðarinnar þurfa að hita húsnæði sitt með raforku á köldum svæðum. Hér er getið um það enn einu sinni að rafhitun á þeim svæðum er miklu, miklu dýrari en annars staðar og sagt að það sé sameiginlegt hagsmunamál ríkis og íbúa að ná niður kostnaði við rafhitun, meðal annars með því að finna út hvar við getum farið í fleiri hitaveitur og vinna að því.

Virðulegi forseti. Það eru líka komnar fram skýrslur sem er vert að hafa í huga sem snúa að því hvernig við getum lækkað eða réttara sagt jafnað rafhitunarkostnað íbúa þessa lands, en þar er mjög skakkt gefið, ef svo má að orði komast. Allt of margir íbúar búa við allt of hátt raforkuverð til húshitunar sem er auðvitað algjörlega ólíðandi.

Á þeim tíu mínútum sem hver þingmaður hefur í þessari umræðu, virðulegi forseti, er ekki hægt að fara yfir alla þætti skýrslunnar. Ég ætla hins vegar að fjalla um 10. kafla, um uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs. Allt er það góðra gjalda vert. Fjölbreytt atvinnulíf dregur úr efnahagslegri áhættu, eykur stöðugleika og þol gagnvart sveiflum og áföllum og styður við sjálfbærni hagkerfisins og þjóðfélagsins. Hér er fjallað um þetta.

Það kemur líka fram, virðulegi forseti, að um 80% af raforkuframleiðslu landsmanna er notað í stóra vinnustaði, stóriðju sem greiðir að því er sumir segja allt of lágt verð. Það má auðvitað alltaf taka undir að æskilegt væri að fá sem hæst verð, en þetta eru nú þeir samningar sem hafa verið gerðir og þeir, virðulegi forseti, eru grunnurinn að því gulleggi sem við eigum í Landsvirkjun. Þó að ekkert væri virkjað og skuldir borgaðar niður á tíu árum, eins og hér hefur komið fram, mundi fyrirtækið mala gull fyrir okkur — eins og það gerir reyndar í dag. Við getum tekið út mikinn arð úr því fyrirtæki.

Það verður aldrei of oft kveðið um fjölbreytileika atvinnulífs. Þess vegna er vonandi að kísilver, svo við tökum sem dæmi, komist í áfanga og til framkvæmda sem allra fyrst, m.a. eitt í Helguvík og tvö á Húsavík. Það skapar aukna fjölbreytni, fleiri egg í körfuna, alveg eins og því ber að fagna að fyrir nokkrum dögum var opnað mjög stórt netþjónabú suður á Miðnesheiði, sem búið var að vinna að lengi. Annað er svo suður í Hafnarfirði.

En svo við minnumst á atvinnulífið, virðulegi forseti, þá fer 80% af raforkuframleiðslu okkar í stóriðjuna, sumir segja fyrir of lágt verð og það má kannski til sanns vegar færa miðað við stöðuna í dag, en ætli þetta hafi ekki verið það sem hægt var að semja um á sínum tíma. Þetta er hluti af því gulleggi sem við eigum hjá Landsvirkjun. Menn tala oft um að við fáum ekki nægilegan arð frá Landsvirkjun. Virðulegi forseti. Ég er ósammála því, vegna þess að ég tel að hver einasti Íslendingur fái arð inn um bréfalúguna um hver mánaðamót þegar við fáum orkureikninginn okkar. Við neytendur borgum sannarlega mjög lágt orkuverð, miklu lægra en í nágrannalöndum okkar. Það er hluti af arðinum sem við fáum frá raforku- og orkufyrirtækjum landsins. Það má auðvitað segja nákvæmlega það sama um jarðvarmann.

Virðulegi forseti. Hér má líka fjalla um bætta nýtingu vatnsafls eins og talað er um í skýrslunni sem er ákaflega merkilegt og Landsvirkjun hefur kynnt á fundum áform sín um bætta nýtingu. Getið er um það í skýrslunni hvernig hægt er að auka nýtingu í virkjunum við það eitt að breyta búnaði, færa hann til nútímans, taka út þau tæki sem keypt voru kannski í upphafi því í dag er tækin orðin miklu betri og gefa meiri nýtingu. Hér er nefnt að með endurbættri hönnun jókst heildarafl Búrfellsvirkjunar úr 220 megavöttum í 270 og í Sigölduvirkjun jókst afl um 15 megavött. Það má taka undir það sem kom fram hér áðan að jöklarnir eru jú að bráðna eitthvað hraðar og auðvitað væri æskilegt að geta nýtt um leið það vatn sem rennur til sjávar og nýtt það betur. Þess vegna eru þau áform Landsvirkjunar sem sett hafa verið fram hvað þetta varðar mjög áhugaverð.

Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki tíma til að fara í eitt atriði sem hér er fjallað um, um tímalengd nýtingarsamninga. Ég hef rætt um það í umræðu á Alþingi og í skýrslunni koma fram athugasemdir frá einum nefndarmanni um styttingu nýtingarsamninga, sem ég get að vissu leyti tekið undir. Það er kannski of langt mál að fara í það í lok ræðu minnar þegar tíminn er búinn, en ef til vill á það mál eftir að koma aftur til þings. Það var á dagskrá í fyrra en náðist ekki að klára það og (Forseti hringir.) ræða til botns. Ég hef ekki tekið eftir því að það sé á þingmálaskrá hæstv. (Forseti hringir.) iðnaðarráðherra núna.