140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það veldur svolitlum vonbrigðum að menn hafa í umræðunni mestanpart dansað gömlu dansana. Það er liðin nánast hálf öld frá því að hér hófst stefna stórvirkjana og það eru liðin ein 40 ár síðan Halldór Laxness skrifaði hina frægu grein sína um hernaðinn gegn landinu sem með öðru markaði upphaf nýrrar náttúruverndarhreyfingar á Íslandi. Það er svo sannarlega kominn tími til að við förum að ræða þessa hluti alla saman á einhvers konar nýjum forsendum, að við reynum að móta stefnu fyrir framtíðina hvað sem fortíðinni líður með öðrum hætti og öðrum rökum en menn beittu í gamla daga.

Þessi skýrsla er partur af því verki og getur orðið einn af hornsteinum þess með þeim verkum sem annars staðar er verið að vinna, bæði á vegum ríkisstjórnarinnar og okkar alþingismanna og líka hjá orkufyrirtækjum, ég nefni Landsvirkjun sem sérstakt dæmi um það, og að sjálfsögðu hjá náttúruverndarsamtökum og náttúruverndarmönnum. Ég minni meðal annars á umsögn náttúruverndarsamtakanna 13 um þingsályktunartillögudrögin um rammaáætlun sem dæmi um nýhugsun af þessu tagi.

Orkustefnan er heldur ekki ein í þessu verki. Sem betur fer benda nokkur verkefni til þess að við gætum smám saman verið að koma vitrænum grunni undir þennan atvinnuveg sem hér um ræðir, orkuiðnaðinn, og þá nýtingu náttúruverðmæta sem hann byggist á, og þá þannig að hann standist framtíðarkröfur og þær kröfur sem við gerum þegar í nútíðinni um verndarnýtingu náttúrunnar, um aðgang annarra atvinnuvega en orkuiðnaðarins og þeirrar greinar sem hann skiptir við, að náttúruverðmætum, af auðlindunum sem við eigum.

Aðrir þættir eru meðal annars rammaáætlun sem hér hefur verið mjög umtöluð í dag. Vonandi kemur það bráðum út úr viðræðum ráðherra í ríkisstjórninni hvernig þingsályktunartillagan á að líta út. Ég hef ástæðu til að ætla að sú tillaga verði þannig að flestir eða margir geti sætt sig við hana. Auðvitað vinnur enginn í slíkum átökum en það er heldur ekki þannig að úrslitaorrustan standi núna í rammaáætlun.

Miklar umræður hafa líka farið fram og mikil vinna unnin um eignarhald í þessari grein. Það voru sett merkileg lög árið 2008, að vísu í ákaflega vondri stjórn. Samsetning þeirrar stjórnar hafði óheppileg áhrif á þau lög um uppskiptingu orkufyrirtækja og eignarhald á hvorum hluta um sig, skil milli almannaþjónustu og fyrirtækjarekstrar í þessu og um nýtingartímann sem menn hafa aðeins minnst á í dag. Ég er í sjálfu sér sammála þeirri almennu forsendu Gunnars Tryggvasonar, sem mikið hefur verið vitnað til og er núna aðstoðarmaður starfandi iðnaðarráðherra, að þar verður að ná einhverri málamiðlun á milli tveggja algjörlega tækra sjónarmiða, annars vegar þess að arðsemi fáist úr þeim orkubisness sem verið er að stunda og hins vegar þess að of langur nýtingartími fer að lokum að nálgast eignarrétt, hafa á sér sama blæ og eignarréttur hefur að lögum og í reynd.

Um þetta er meðal annars fjallað í nýútkominni skýrslu sem við ræddum um daginn í utanríkismálanefnd af öllum nefndum og ég hef saknað nokkuð úr fjölmiðlaumræðu og annarri umræðu í stjórnmálunum. Arnar Guðmundsson var formaður þeirrar nefndar sem samdi þá skýrslu upp úr Magma-málinu sem veruleg átök voru um fyrir nokkrum missirum, má segja.

Við erum líka að ræða miklu víðar um orkustefnuna og afgjald fyrir nýtingu almannaeignar, hvaðan auðlindarentan á að koma og hvert hún á að renna. Orðaskipti voru um það. Inn í þetta dæmi kemur skýrsla um orkustefnu sem er merkileg vinna, margt unnið í fyrsta sinn og annað sett í fyrsta sinn saman svo merking skapist úr þáttunum. Tillögunum úr þessari vinnu þarf endilega að finna stað í stefnumörkun stjórnvalda og í eigandastefnu orkufyrirtækjanna og það verður annað vers hér þegar fyrir liggur þingsályktunartillaga þar sem tekið hefur verið tillit til þessarar umræðu og hinnar almennu í samfélaginu.

Erindi mitt hingað er sérstaklega að benda á töfluna á bls. 11, yfirlit um áætlaða raforkugetu í vatnsafli og jarðhita. Ég var að ræða hana við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og gagnrýna hann fyrir meistaralega, skal ég viðurkenna, og glannalega framsetningu á einum stað í töflunni. Það sem skiptir þar mestu máli er að gera sér grein fyrir því, forseti, hversu lítið er eftir af nýtanlegri raforku á landinu. Menn hafa talað, og það eru gömlu dansarnir, eins og hér sé gjörsamlega óþrjótandi uppspretta raforku og auðæfa sem þaðan af renna og nú verði að fara að byrja, þetta renni allt meira og minna í sjóinn ónotað rétt eins og menn standi í sporum Einars Benediktssonar fyrir 100 árum sem á sér marga afsökun og þó einkum trú sína á framtíðina og kjark sinn. Sjónarmið hans eru horfin í glatkistu tímans vegna þess að við vitum að fossarnir þeyta ekki gullinu í hafið heldur kemur það út á mörgum öðrum stöðum.

Í þeim hópi virkjana sem þegar eru komnar á og eru í byggingu eru tölurnar um 18,2 teravattstundir. Í orkunýtingarflokki samkvæmt þingsályktunartillögudrögunum úr rammaáætlunarverkinu eru 11,9 teravattstundir og í biðflokknum 9. Þetta merkir að hvað sem líður tví- eða þrískiptingu þess sem er í biðflokknum er í allra mesta lagi hægt að virkja á Íslandi öllu um alla framtíð jafnmikið og við höfum þegar virkjað á 50 árum. Auðvitað er ekki mitt að segja hvort í sjálfu sér eigi að nota lýsingarorðið mikið eða lítið um það en það er jafnmikið og þegar hefur verið virkjað, það er sem sé ekki meira.

Kostirnir sem nú eru í orkunýtingarflokki og enginn veit hvort enda þar jafngilda um tveimur og hálfri Kárahnjúkavirkjun. Það er ekki meira sem við höfum til ráðstöfunar. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að við verðum að einbeita okkur í framtíðinni að miklu betri nýtingu virkjanakostanna sjálfra, bæði jarðvarmans sem við nánast rányrkjum eins og við nýtum hann núna en líka vatnsaflsins eins og menn hafa sagt ágæta hluti um hér. Ég undanskil þá algjörlega í gagnrýni minni á gömlu dansana það sem þar er sagt að menn nýti betur þær virkjanir sem upp eru komnar.

Í öðru lagi þurfa menn að fá hærra verð fyrir þau 80% sem er verið að selja stórnotendum, stóriðjunni, almennilegt og hátt verð. Við eigum að hætta allri útsölu á rafmagni frá Íslandi, þeirri skítnýtingu sem í raun og veru fer fram á íslenskum auðlindum. Í því sambandi þurfum við líka að fjölga kostum við kaupendur, stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi, sjá til þess að það verði atvinna fyrir hálaunaða og fyrir menntamenn framtíðarinnar, fyrir börn okkar og barnabörn. En við verðum líka að passa okkur á að spilla sem allra minnstu, að reikna hagnað okkar af orkuauðlindinni á móti þeim hagnaði sem að sumu leyti er reiknað með en að öðru leyti ekki af þeirri náttúru sem við búum við. Við verðum umfram allt að passa okkur á því að taka ekki allt í einu, fara ekki að ráðum hv. þm. Jóns Gunnarssonar, að fara eftir einni af fjórum sviðsmyndum Landsvirkjunar og klára málið á tíu árum. Þá værum við að bregðast næstu kynslóðum, þá værum við að fara miklu lengra en okkur, stjórnvöldum og almenningi á Íslandi árið 2012, er siðferðilega leyfilegt að gera.