140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innganginn og að flytja þessa skýrslu stýrihópsins. Ég ætla að leyfa mér í upphafi að benda á að þessi stýrihópur er skipaður af iðnaðarráðherra, eins og kemur fram, og ber að mínu viti pólitískt yfirbragð. Það má færa fyrir því rök að um einhvers konar pólitíska yfirlýsingu sé að ræða í þessu plaggi. Ég bendi jafnframt á að formaður þessa stýrihóps er Vilhjálmur Þorsteinsson sem er, ef ég man rétt, stjórnarformaður eða nátengdur í það minnsta fyrirtækinu Verne sem er búið að opna gagnaver á Reykjanesi, gjaldkeri Samfylkingarinnar ef ég man rétt og ýmislegt annað. Maður veltir fyrir sér hvort í þessari stefnu geti falist einhvers konar hagsmunasýn um framtíðarmúsík er snertir gagnaver eða eitthvað annað. Ég vil koma þessu á framfæri.

Á bls. 6 í þessari skýrslu er talað um endurskoðun á þessari stefnu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að stefna sem þessi hlýtur alltaf að vera í endurskoðun enda kemur fram að það eigi að vera eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Stefna eins og sú sem hér er lögð fram hlýtur alltaf að vera í endurskoðun.

Síðan komum við á bls. 10 að umfjöllun um raforkuvinnslu og hér er talað um fræðilega nýtanlegt vatnsafl og nýtanlegt í reynd. Þessi klausa stendur aðeins í mér. Þegar talað er um fræðilega nýtanlegt vatnsafl er að sjálfsögðu líka talað um vatnsafl sem engum okkar dytti í hug að nýta, þ.e. innan þjóðgarða, friðlanda og þess háttar. Það sem mér finnst sérkennilegt í þessum texta er meðal annars þetta, með leyfi forseta:

„… í biðflokki rammaáætlunar um vatnsafl og jarðvarma, svæði í verndarflokki og að lokum svæði í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Orka frá virkjanakostum í orkunýtingarflokki er vinnanleg og nýtanleg í reynd.“

Ég vil að það komi fram í þingtíðindum að þessi texti má hvorki né getur, að mínu viti, útilokað að í biðflokki séu líka kostir sem eru vinnanlegir og nýtanlegir í reynd. Það má hugsanlega lesa þennan texta þannig að það sé útilokað en ég tel að svo sé ekki þannig að það komi alveg skýrt fram.

Síðan er farið yfir það hvað er nýtanleg orka í vatnsfalli og jarðhita miðað við þær forsendur sem hér eru gefnar. Allt í lagi með það. Það er farið yfir raforkumarkaðinn og þá sögu sem við höfum um hann, þ.e. þegar við breyttum lögum 2003 í samræmi við raforkutilskipun Evrópusambandsins. Ég held og hef sagt það áður og segi það alls staðar þar sem ég kem að það hafi verið mikil mistök að innleiða þessa tilskipun. Við sjáum meðal annars að eitt orkufyrirtæki landsins hefur ekki enn þá uppfyllt það sem átti að uppfylla þarna, þ.e. Orkuveita Reykjavíkur sem fær frest ár eftir ár til að losna við þessa uppskiptingu.

Síðan er talað um gjaldskrá Landsnets en hún er háð tekjumörkum sem Orkustofnun setur út frá viðmiðum sem nánar eru skilgreind í raforkulögum. Þessi viðmið og þær reglur sem gilda um Landsnet og tekjumörkin eru þess eðlis að það er nánast útilokað að tengja minni virkjanir inn á raforkunetið vegna þeirra krafna sem eru gerðar og tengigjalda sem Landsnet ætlar að taka. Nærtækast er að nefna Hvalárvirkjun fyrir vestan sem væri mikil búbót og öryggisatriði fyrir þann landshluta en er óframkvæmanleg vegna þeirra reglna og laga sem þarna gilda. Ég hefði viljað sjá að í þessari orkustefnu væri tekið á því hvernig mætti breyta þessu.

Á bls. 19 er talað um hagsmuni komandi kynslóða. Ég fór aðeins inn á það fyrr í dag, ég held að hagsmunir komandi kynslóða geti líka falist í því að nýta virkjunarkosti, hvort sem er í vatnsafli eða jarðhita. Það eru ekki eingöngu hagsmunir framtíðarinnar að friða. Við þurfum líka að horfa nær okkur, ekki bara til langrar framtíðar. Allt þarf þetta að leita í eitthvert jafnvægi.

Þar af leiðandi vil ég koma því á framfæri að ég hef töluverðar áhyggjur af því að það jafnvægi sem sóst er eftir í vinnu við verndar- og nýtingaráætlun og sú tillaga sem á að koma inn í þingið eftir að verkefnisstjórn og rammaáætlun skila af sér er orðið mjög pólitískt. Vinnuhópur tveggja ráðuneyta er að fjalla um það mál. Ég veit ekki hvort rétt er haft eftir í Fréttablaðinu að lögð sé áhersla á að sú tillaga sem komi inn í þingið taki ekki breytingum heldur komi eins út úr þinginu og hún fer inn. Hæstv. ráðherra hristir hausinn og ég trúi því þá að þetta sé byggt á misskilningi hjá Fréttablaðinu en það gengur vitanlega ekki að hugsa málið þannig.

Síðan er einnig á bls. 19 talað um samfélagslega þætti, það er talað um sanngjarnan arð af sameiginlegum auðlindum o.s.frv. Hver er hinn sanngjarni arður? Hvernig er hann skilgreindur? Er það sanngjarnt að nota þann arð sem er í dag af orkuframleiðslunni til að vera með tiltölulega lágt orkuverð miðað við Evrópumarkaðinn eða felst sanngirnin í því að hækka það orkuverð til jafns við Evrópumarkaðinn og láta hagnaðinn renna í einhvern sameiginlegan auðlindasjóð? Ég er ekki sannfærður.

Á bls. 22–23 er talað um náttúruhamfarir og ýmislegt annað og einnig afhendingaröryggi raforku. Sá kafli lætur mjög lítið yfir sér, verð ég að segja. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Á svæðum utan hringsins, t.d. á Vestfjörðum, er afhendingaröryggi lakara vegna þess að þar er svokölluð geislatenging. Einungis ein lína, sem er undir miklu álagi vegna veðurfars, tengir Vestfirði við byggðalínuna.“

Síðan kemur neðar að það sé markmið að „landsmenn búi við fullnægjandi afhendingaröryggi raforku, sem skilgreint verði á samræmdan hátt“.

Við ræddum aðeins í þinginu, í haust minnir mig, að það eru uppi vangaveltur um að setja upp dísilstöðvar fyrir vestan til að tryggja orkuöryggið. Það er að mínu viti algjörlega galin hugmynd og óásættanlegt að ætla Vestfirðingum að tryggja rafmagn og upphitun fyrir hús sín og fyrirtæki með dísilstöð. Eina ráðið til að tryggja raforkuöryggi er að styrkja línurnar. Það er það sem verður að gerast.

Ég vil einnig koma inn á að það er mjög mikilvægt að byggðalínan verði styrkt úr Húnavatnssýslum og yfir í Eyjafjörð. Þar er kafli sem er orðinn mjög lélegur og það þarf að fara í hann. Það getur verið að það sé minnst á það hér en ég hef ekki rekist á það. Það er mjög mikilvægt að sú lína verði tryggð þannig að hringtengingin verði efld, ekki síst vegna atvinnuuppbyggingar í Eyjafirði.

Ég var búinn að nefna rammaáætlun þannig að ég ætla að hlaupa yfir þann kafla. Svo er talað um flutningskerfið, að sjónræn og önnur umhverfisleg áhrif séu takmörkuð, m.a. með hagsmuni ferðaþjónustu og útivistarfólks í huga. Jú, jú, þetta er allt gott og blessað en það kann að vera nauðsynlegt að leggja rafmagnslínur með hagsmuni íbúa einhvers þorpsins í huga eða hagsmuni atvinnu á svæðinu þannig að það verður að taka þá inn formúluna líka.

Herra forseti. Tími minn er að verða búinn. Þó er ég ekki hálfnaður með þessa skýrslu. Ég mun þar af leiðandi koma inn í umræðu síðar þegar nefndin verður búin að fjalla um skýrsluna en það er mjög margt við hana að athuga. Þó vil ég segja að það er mjög gott að hún sé komin fram. Það er gott að reynt sé að marka heildstæða orkustefnu, því ber að fagna líkt og við þurfum að reyna að ná einhvers konar heildarsýn yfir það hvað við viljum vernda og hvað við viljum virkja. Þetta plagg þarf þó að taka breytingum að mínu viti.