140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[17:03]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er um margt góð skýrsla á ferð um heildstæða orkustefnu fyrir Ísland. Tæpt er á mörgum góðum atriðum sem löngu er tímabært að taka afstöðu til og taka til umræðu á Alþingi. Ég vil fjalla um fáein atriði úr skýrslunni sem ég tel vert að halda til haga í umræðunni.

Í fyrsta lagi kemur fram ákveðin nýbreytni í mati á afkastagetu jarðhitasvæða. Fram kemur í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Fræðilega nýtanlegur straumur jarðvarma til raforkuvinnslu er áætlaður um 10–30 teravattstundir á ári miðað við 100–300 ára nýtingartíma, sem telst vera viðmiðunartími sjálfbærrar nýtingar.“

Því er lögð fram hófsamari nálgun en í eldri áætlunum þar sem miðað var við styttri nýtingartíma eða aðeins 50 ár. Hér er því boðin aukin varfærni í anda hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og er það vel, en eins og kemur fram í skýrslunni er þetta mat bundið talsverðri óvissu og byggir á takmörkuðum gögnum.

Önnur nýbreytni kemur fram í 7. kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um virðingu fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum. Þar er fjallað um verðgildi umhverfis og náttúru en hingað til hefur ekki verið horft til þeirra þátta við ákvarðanatöku og undirbúning verkefna á Íslandi. Það hefur hins vegar verið gert innan Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og Kanada og vísindastofnanir víða um heim hafa talað fyrir því að verðgildi náttúru sem tapast við nýtingu, eða umhverfiskostnaður, sé fellt inn í ákvarðanatöku. OECD hefur einnig mælt með því að umhverfiskostnaður verði með beinum hætti hluti af hagrænni kostnaðar- og ábatagreiningu við mat á frekari uppbyggingu í orkufrekum iðnaði á Íslandi. Það er því afar gott að sjá að skýrsluhöfundar hafi fjallað um þetta atriði í skýrslunni.

Í 8. kafla er fjallað um arð þjóðarinnar af auðlindum. Í þeim afla kemur fram að arðsemi virkjanaframkvæmda sé metin og reiknuð á grundvelli eigin lánshæfis og áhættumats verkefnanna en ekki lánshæfis opinberra eigenda. Þetta er auðvitað vel af ástæðum sem öllum Íslendingum ættu að vera ljósar. Í skýrslunni er hins vegar einnig tekið fram að dótturfélagsform í fullri eigu vinnslufyrirtækjanna kunni að vera rétta tækið til að takmarka áhættu. Í skýrslunni er lagt upp með opinbert eignarhald, beint eða óbeint, en rekstrarformið sem lagt er til býður hins vegar þeirri hættu heim að stjórnvöld á hverjum tíma geti með auðveldari hætti en ella einkavætt raforkuvinnslu. Mikilvægt er að í löggjöf sé búið þannig um hnútana að ekki verði auðsótt að færa dótturfélögin úr almannaeigu.

Í 9. kafla skýrslunnar er rætt um leiðir til orkusparnaðar. Þar er meðal annars fjallað um rafhitun húsa. Hér á landi er raforka notuð til húshitunar á köldum svæðum og þar búa um 10% þjóðarinnar, en talsvert hefur verið fjallað um þennan stutta kafla skýrslunnar í dag. Stýrihópurinn leggur til markmið og leiðir til að draga úr rafhitun. Markmiðið er að lágmarka notkun raforku til hitunar og auka hlutdeild annarra hagkvæmra orkugjafa. Þá er lagt til að gefa notendum á köldum svæðum val um að fá styrki til fjárfestinga í orkusparnaði og bættri orkunýtingu gegn lækkuðum niðurgreiðslum á orku til húshitunar og meðal annars er lagt til í þessu miði að auka notkun varmadælna á slíkum svæðum.

Ég geri mér grein fyrir því að hér er verið að leita leiða til orkusparnaðar og nýta frekar umhverfisvænni lausnir. Ég tel hins vegar að í heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland eigi jafnframt að vera skýrt markmið að allir landsmenn búi við sambærilegan húshitunarkostnað. Þeir styrkir sem vísað er til í skýrslunni verða því að endurspegla þann gríðarlega kostnaðarmun sem liggur í að hita húsnæði á köldu svæði í dreifbýli samanborið við þéttbýli á hitaveitusvæði.

Í skýrslunni er einnig fjallað um leiðir til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Hafa ber í huga að skýrslan er lögð fram eftir að þingsályktunartillaga um orkuskipti í samgöngum var samþykkt. Í þeirri skýrslu er meðal annars fjallað stuttlega um notkun metaneldsneytis ásamt öðrum orkugjöfum.

Í skýrslunni er stefnt að því markmiði að stuðla að orkuskiptum með aukinni hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og skipafjölda. Þá eru lagðar til leiðir til að ná þeim markmiðum, en þá heyrist gamalkunnugt stef: Það þarf að rannsaka og fara út í vöruþróun. Þetta hefur verið helsti ljár í þúfu uppgangs endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Staðreyndin er sú að nú þegar liggur fyrir nægjanleg vitneskja og rannsóknir til að grípa strax til aðgerða sem lúta að þessum markmiðum. Ég hefði viljað sjá skýrsluhöfunda kveða sterkara að orði um beinar aðgerðir til að ná markmiðum til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum.

Að lokum vil ég vekja athygli á því að í erindisbréfi er hópnum ætlað, með leyfi forseta, að:

„Ná heildaryfirsýn yfir mögulegar orkulindir landsins, aðferðir og tækni við nýtingu þeirra, hugsanleg umhverfisáhrif og sjálfbærni nýtingarinnar ásamt rekstrarlegri og þjóðhagslegri hagkvæmni.“

Með vísan til erindisbréfs þessa þykir lítið fara fyrir umfjöllun um sólarorku, vindorku og sjávarfallaorku, svo eitthvað sé nefnt, þó vissulega sé komið inn á þau efnisatriði.

Það verður hins vegar ekki sagt að í þessari heildstæðu orkustefnu sé að finna heildarsýn yfir mögulegar orkulindir landsins eins og segir í erindisbréfinu. Heildarsýn er lögð fram um jarðvarmalindir og vatnsföll en aðrar mögulegar orkulindir landsins eru ekki gaumgæfðar með sama hætti og mikilvægt er að í endurskoðun slíkrar stefnu, eins og boðuð er á fjögurra ára fresti, verði bætt úr og mögulegar orkulindir aðrar en vatnsafl og jarðvarmi verði kortlagðar þannig að um heildarsýn á orkulindir landsins náist raunveruleg sátt fram.