140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[17:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði búist við því að hæstv. ráðherra reyndi að svara nokkrum af þeim spurningum sem fyrir hana voru lagðar í þessari umræðu og þess vegna ætla ég að ítreka tvær spurningar sem mér finnst skipta máli hérna.

Það er annars vegar grundvallarspurningin og hún er þessi: Á að virkja frekar? Mér finnst að svarið við þeirri spurningu liggi nokkuð í óvissu eftir þessa umræðu. Það sem maður hefur heyrt frá stjórnarliðum, eins og til dæmis hæstv. umhverfisráðherra og fleirum sem hér hafa talað, finnst mér allt eins mega túlka á þann veg að nú sé komið að einhverri endastöð. Við þurfum ekki á frekari virkjanaframkvæmdum að halda, ekki sé ætlunin að ganga miklu lengra í þeim efnum, að við skuldum það komandi kynslóðum að skilja eftir svo og svo mikið af óvirkjuðum möguleikum. Það sé því ekki brýnasta verkefnið — öðru nær — að fara í virkjanir.

Nú liggur fyrir, samkvæmt þeirri skýrslu um rammaáætlun sem hefur verið kynnt, að gert er ráð fyrir talsverðum möguleikum í nýtingarflokki. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er það hugmyndin eða er það stefna ríkisstjórnarinnar að halda áfram virkjanaframkvæmdum?

Í annan stað vil ég spyrja um það sem snýr að orkuöryggi. Eins og hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni áðan, og kemur fram í þessari skýrslu, er ein af fjórum stoðunum sem þessi stefna hvílir á spurningin um orkuöryggi og ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson höfum nefnt tiltekið dæmi sem er mjög brýnt, sem er orkuöryggi á Vestfjörðum. Heimamenn hafa svarað því mjög skýrt að besta leiðin og eina alvöruleiðin til að tryggja þar orkuöryggi sé að fara af stað með tiltekna virkjunarframkvæmd, Hvalárvirkjun. Forsendan fyrir því er hins vegar að nýtt verði heimild sem nú er í gildandi raforkulögum um að innheimta ekki svokallað tengigjald, sem sparar 2 til 3 milljarða kr. Þessi spurning er því uppi: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þessa? Telur hæstv. ráðherra að til greina komi að virkja þetta ákvæði raforkulaga og við svona aðstæður að fella tengigjaldið niður?