140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[17:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður virðist túlka umræður, og þá skýrslu sem hér er til umræðu, á þann veg að ekki eigi að virkja frekar og það kemur mér sannarlega á óvart. Það er einmitt talað um virkjanamöguleika og mikilvægi þess að nýta auðlindina, en einnig er lögð áhersla á það í þessari skýrslu, og það hefur verið gert í umræðunum hér í dag, að nýta þurfi orkuna sem nýtanleg er af yfirvegun með hámarksarðsemi og langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Þetta er stefið í því sem hér hefur verið rætt um. Vissulega þarf að nýta auðlindina en það þarf að gera það af yfirvegun og ekki á að ráðast í virkjanir nema að lágmarki fáist til baka fórnarkostnaður vegna glataðra umhverfis- og náttúrugæða og kostnaður opinberra aðila vegna rannsókna og umsýslu. Einnig er lögð áhersla á að auðlindarentan renni til þjóðarinnar.

Fjallað er um orkuöryggi í skýrslunni sem er ákaflega mikilvægt mál sem við þurfum að taka hér til gagngerrar skoðunar, t.d. varðandi olíubirgðir, hvað við getum geymt mikið af olíu í landinu. Við erum vissulega háð því að stöðugt komi olía til landsins, við erum óskaplega háð því eldsneyti og það þurfum við að skoða vandlega.

Varðandi orkuöryggi á Vestfjörðum vil ég taka undir áhyggjur hv. þingmanna. Ég vil taka það til sérstakrar skoðunar þó að ég treysti mér ekki á þessari stundu að útfæra lausnir á þeim vanda.