140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Baráttan fyrir mannsæmandi lífi, baráttan fyrir brauði og vatni er því miður daglegt viðfangsefni milljóna manna um heim allan. Í amstri hversdagsins leiðum við sem búum við velmegun sjaldan hugann að þeirri skelfilegu neyð sem milljónir búa við. Ný skýrsla Barnaheilla – Save the Children varpar ljósi á þennan vanda með sérstakri áherslu á vannæringu barna.

Í skýrslunni kemur fram að hækkandi matvælaverð og vannæring geti staðið í vegi fyrir því að frekari árangur náist í baráttunni við barnadauða í heiminum. Þar kemur sömuleiðis fram að þótt vannæring sé undirliggjandi ástæða þriðjungs alls barnadauða í heiminum hefur henni ekki verið veitt sama athygli eða fengið jafnmikið fjármagn og aðrar orsakir barnadauða, svo sem alnæmi, eyðni eða malaría. Þetta þýðir að á meðan tekist hefur að draga úr barnadauða af völdum malaríu um þriðjung frá árinu 2000 hafa tölur um vannæringu barna í Afríku einungis lækkað um innan við 0,3%. Þetta ástand er heiminum dýrt, bæði út frá mannúðar- og fjárhagslegum sjónarmiðum. Barnaheill telur kostnað hins alþjóðlega hagkerfis vegna vannæringar barna einvörðungu á árinu 2010 vera nær 121 milljarði bandaríkjadala. Samtökin hafa hvatt þjóðarleiðtoga til að grípa til einfaldra aðgerða til að takast á við vannæringu og benda í skýrslu sinni á að á hverri klukkustund dagsins deyja 300 börn af völdum vannæringar, oft einfaldlega af því að þau hafa ekki aðgang að grunnfæði sem er næringarríkt og við lítum á sem sjálfsagðan hlut í ríkari hlutum heimsins.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja íslensk stjórnvöld, þing og þjóð til að horfast í augu við þessa neyð og einsetja sér að leggja sitt af mörkum til að takast á við vannæringu barna og barnadauða. Ég mun beita mér fyrir kynningu og umræðu um þetta mál á vettvangi utanríkismálanefndar Alþingis á næstunni.