140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða um stjórnarskrána og þá tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem núna er til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Ég var mikill stuðningsmaður stjórnlagaþingsins frá upphafi og tel að þrátt fyrir þá erfiðleika sem það mál lenti í vegna dóms Hæstaréttar hafi það í stórum dráttum skilað farsælli niðurstöðu sem verðskuldar jákvæða meðferð bæði þings og þjóðar. Ég tel að það frumvarp sem liggur fyrir þinginu sé í stórum dráttum mikið framfaraspor, ekki síst kaflinn um mannréttindi og náttúru, þar með talin 34. gr. sem kveður á um að sjálfbær þróun og almannahagur eigi að vera leiðarljós við nýtingu auðlinda í þjóðareign.

Nú hefur hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kynnt opinberlega þá hugmynd að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta frumvarp samhliða forsetakosningum í sumar. Ég tel það góða hugmynd og lýsi yfir stuðningi við þá leið. Ég tel mikilvægt að fá almenna afstöðu þjóðarinnar til þess frumvarps sem nú liggur fyrir en sérstaklega afstöðu þjóðarinnar til tiltekinna álitaefna sem helst hafa verið reifuð og tengjast meðal annars stöðu og hlutverki forseta Íslands, kaflanum um trúfrelsi og stöðu þjóðkirkjunnar og afstöðu til ákvæða um auðlindir í þjóðareign. Ég held til dæmis að það væri mjög gagnlegt fyrir þingið að fá skýra afstöðu þjóðarinnar til þess hvort halda eigi inni málskotsrétti forseta Íslands eða hvort þjóðin telji það ákvæði óþarft þegar búið verður að tryggja sjálfstæðan rétt þjóðarinnar til þjóðaratkvæðis í stjórnarskránni.

Meginmálið er að ný stjórnarskrá er eitthvert mikilvægasta verkefni stjórnmálanna og reyndar samfélagsins alls eftir hrun. Það var (Gripið fram í.) þjóðin sem valdi þá fulltrúa sem sömdu það frumvarp sem liggur fyrir þinginu. Hún mun segja sitt álit á endanlegu frumvarpi þegar það kemur fram á lokaþingi þessa kjörtímabils og það er fullkomlega eðlilegt að hún gefi þinginu leiðsögn um það hvernig fara skuli með helstu álitamálin í því frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu.