140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sjónarmið jafnaðarmanna að við eigum að bera virðingu fyrir skoðunum hvert annars (Gripið fram í.) en orðum fylgja ábyrgð, þá sérstaklega hvar og hvenær þau eru látin falla. Ummæli barnaskólakennara á Akureyri hafa verið nokkuð í fjölmiðlum en hann fjallaði um samkynhneigð á bloggsíðu sinni og dæma þau ummæli sig sjálf, en öllu alvarlegri eru hins vegar ummæli hv. þingmanns í þingsal og í fjölmiðlum í gærkvöldi. Þau eru með hreinum einsdæmum og mikilvægt að mínu mati að viðkomandi stígi fram og biðjist afsökunar á þeim. Reyndar eru þau á svo lágu plani að það ætti varla að minnast á þau í þessum sal.

Ég held að það sé mikilvægt, kæru þingmenn, að við freistum þess að byggja upp samfélag án fordóma þar sem við hjálpum hvert öðru til að öðlast lífshamingju. Samkynhneigðir eiga á brattann að sækja í okkar þjóðfélagi og þess vegna verðum við þingmenn að gefa samfélaginu skýr skilaboð, sérstaklega því unga fólki sem er samkynhneigt um að við ætlum að standa með því. Við ætlum ekki að bregðast, við ætlum ekki að láta svona ummæli afturhaldsins líðast. Eins og samkynhneigðir sjálfir hafa lagt áherslu á eru það viðhorf samfélagsins sem hafa mest um það að segja hvernig fólki tekst að takast á við samkynhneigð sína.

Unglingsárin eru það tímaskeið ævinnar þegar einstaklingnum þykir hvað mikilvægast að tilheyra hópnum og njóta viðurkenningar. Því er afar mikilvægt að sá unglingur sem er í þann veginn að átta sig á samkynhneigð finni að tilfinningar hans séu jafnmikils virði og annarra og ekki síður að þær njóti viðurkenningar þeirra sem skipta unglinginn máli. Hér eiga þingmenn á Alþingi Íslendinga að stíga fram og rækta þessar skyldur sínar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)