140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Núna er nýlokið kjördæmaviku þar sem við fórum vítt og breitt um landið, þá sérstaklega landsbyggðarmenn. Við hv. þm. Höskuldur Þórhallsson héldum marga fundi í Norðausturkjördæmi og það var gaman að skynja þann kraft sem einkennir þau samfélög sem hafa lifibrauð sitt af fiskveiðum, öflugum landbúnaði, iðnaði og ferðaþjónustu. Við velkjumst varla í vafa um það á þingi að í þessum byggðarlögum verða til gríðarleg útflutningsverðmæti. Þess vegna skar í hjartað að heyra um þau skilyrði sem fólki í þessum byggðarlögum eru búin.

Í fyrsta lagi hefur raforkuverð stórhækkað á hinum svokölluðu köldu svæðum þannig að 10% íbúa landsins borga margfalt hærra verð fyrir það að kynda og lýsa upp hús sitt en hin 90%. Það er ekkert réttlæti í því.

Jafnframt hefur bensínverð stórhækkað. Það eru til að mynda miklar vegalengdir í Norðausturkjördæmi. Þetta bitnar á atvinnulífi og heimilunum þar. Þetta er annar hlutur sem við þurfum að leiðrétta.

Í þriðja lagi er verulegt áhyggjuefni að verða vitni að því að hin norræna velferðarstjórn hefur vegið mjög að grunnþjónustunni í mörgum af þessum byggðarlögum, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og fleira mætti nefna. Við þurfum að snúa umræðunni á þann veg að þarna verða til gríðarleg verðmæti. Þessar byggðir skipta þjóðarbúið verulega miklu máli. Allt tal um byggðastefnu eða niðurgreiðslu eða neikvæðar umræður um samgöngubætur á þessum svæðum til að bæta lífsskilyrðin eru á villigötum og ég hvet þingmenn til þess núna, við gerð samgönguáætlunar og almennt þegar við horfum til uppbyggingar í velferðar- og löggæslumálum í samfélaginu, að skilja ekki þessar byggðir eftir. Ef áfram verður haldið í niðurskurði (Forseti hringir.) er vegið að grundvallarmannréttindum fólks á þessum stöðum.