140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um skýrsluna sem aldrei barst og ég ætla að ræða um 54. gr. stjórnarskrárinnar; það er eins gott að halda þá stjórnarskrá sem við höfum í dag þegar menn ræða svo mikið um að koma með nýja. Samkvæmt henni eiga ráðherrar að gefa Alþingi skýrslur.

Þann 14.6.2010 og aftur þann 16.3.2011 samþykkti Alþingi að óska eftir skýrslu frá efnahagsráðherra um stöðu gjaldeyrismarkaðar fyrstu þrjá, fjóra mánuðina eftir hrun. Þá var hér afskaplega alvarleg staða. Ekki var til gjaldeyrir fyrir olíu og lyfjum og þeir sem áttu gjaldeyrisinnstæður í útlöndum fengu þær ekki fluttar til landsins vegna beitingar hryðjuverkalaga Breta.

Svona skýrsla gæti nýst í málaferlum varðandi Icesave, gæti nýst í málaferlum einstaklinga gagnvart erlendum kröfuhöfum o.s.frv. Ég tel, og þeir sem fluttu þessa skýrslubeiðni með mér, mjög mikilvægt að þetta komi fram.

Frú forseti. Ég hlýt að kvarta alvarlega undan því að framkvæmdarvaldið sýni Alþingi þá lítilsvirðingu að svara ekki skýrslubeiðni Alþingis um svo veigamikið atriði. Ég veit ekki hvort ég eigi að leggja þessa skýrslubeiðni fram í þriðja skipti til að fá svar við því hvað var eiginlega á seyði og á döfinni á Íslandi fyrstu þrjá, fjóra mánuðina eftir hrun.