140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svarið er fremur einfalt, ég tel ekki að það skorti sérstaklega upplýsingar til að taka ákvarðanir um frekari aðgerðir í þágu skuldamála heimilanna. Bæði fóru hér fram mjög viðamiklar greiningar hjá Seðlabankanum eftir mestu efnahagsáföllin og síðan höfum við fengið með jafnaðarlegu millibili býsna ítarlegar upplýsingar um skuldastöðu heimila úr skattframtölum, innan árs frá því að þau eru lögð fram. Frá einu ári til annars eru ekki að verða stórvægilegar breytingar á þessari stöðu. Þróun skuldanna frá einum tíma til annars er nokkuð ljós og hægt er meðal annars með tilstilli Hagstofunnar og í samvinnu við bankana að leita eftir upplýsingum um stöðu einstakra þátta almennt séð. Þau sjónarmið voru uppi af hálfu Persónuverndar að unnt væri að byggja á almennum upplýsingum ákvarðanir um frekari aðgerðir en ekki væru málefnaleg rök til þess að fara þyrfti í persónugreinanlega upplýsingasöfnun um einstaklinga sem væri erfitt í litlu samfélagi því að þar geta auðvitað komið upp dæmi um einstaklinga sem, þó að þeir séu ekki nafngreindir, auðvelt er að þekkja vegna sérstakrar fjölskyldugerðar eða þess hvar viðkomandi hefur búsetu o.s.frv.

Ég held að þessi sjónarmið hafi í meginatriðum legið að baki og var fyrst og fremst spurning um hvaða pólitískur vilji væri til aðgerða. Vandinn er öllum ljós, við höfum tiltölulega nýjar upplýsingar og greiningu á vandanum sem sýnir að fyrir hrun hafi um 20% heimila verið með neikvæða eiginfjárstöðu. Það hlutfall er nú 40% þannig að okkur má vera alveg ljóst umfang skuldanna í öllum meginatriðum, umfang þess hóps sem kominn er í neikvæða eiginfjárstöðu og hver saga (Forseti hringir.) hans er í aðalatriðum.