140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef við erum að tala um upplýsingar um stöðu heimilanna er eitt í það minnsta ljóst og það eru nýjar fréttir um að 16% þeirra sem eru á vinnumarkaði séu á vanskilaskrá. Þeim hefur fjölgað um 9.600 frá haustinu 2008. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvert hlutfallið er í öðrum löndum en mér finnst 16% af vinnuaflinu vera ansi hátt hlutfall því að við getum gert ráð fyrir því að stór hluti fólks á vinnumarkaði sé skuldlítill eða skuldlaus.

Ég var að koma af fundi á Nordica-hóteli hjá Viðskiptaráði og það vakti athygli að hæstv. forsætisráðherra var þar ekki meðal ræðumanna eins og venja hefur verið undanfarna áratugi. Þar voru kynntar niðurstöður skoðanakönnunar sem ég held að sé hollt fyrir okkur þingmenn að kynna okkur. Þar kom fram að 90% landsmanna telja atvinnulíf skipta mestu máli fyrir bætt lífskjör. Það er ein leið til að vinna á skuldum heimilanna að bæta lífskjörin. Þegar hins vegar forsvarsmenn fyrirtækja voru spurðir hvað þeir teldu hindra vöxt og viðgang íslensks efnahagslífs, og nú hvet ég hv. þingmenn stjórnarliðsins til að hlusta, töldu 50% að stjórnvöld hindruðu vöxt og viðgang í íslensku efnahagslífi, skattumhverfi var 30% og kom mér á óvart að gjaldeyrishöftin voru einungis 15% og bankarnir 10%. Helmingur forsvarsmanna fyrirtækja taldi sem sagt að stjórnvöld hömluðu vexti og viðgangi (Forseti hringir.) íslensks efnahagslífs. Það hljóta að vera mjög skýr skilaboð og ekkert (Forseti hringir.) til að hlæja að, virðulegi forseti.