140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[15:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir að vekja máls á þessu efni sem við höfum að sjálfsögðu nokkrum sinnum rætt í þessum sal, enda má segja að þetta hafi verið viðvarandi viðfangsefni í íslensku skólakerfi, þ.e. brotthvarf úr framhaldsskólanámi. Hlutfall þeirra sem falla brott eða hverfa frá framhaldsskólanámi hefur raunar farið nokkuð lækkandi undanfarin tíu ár eða úr um 40% í um 30%. Hins vegar erum við enn þá með miklu meira brottfall en þau lönd sem við miðum okkur við gjarnan, til að mynda Norðurlöndin, og sett hefur verið fram áætlun og markmið ríkisstjórnarinnar í sóknaráætlun 20/20 um að ná þessu hlutfalli niður í 10% á árinu 2020. Það er ljóst að taka þarf á þessum málum en hins vegar er líka ljóst eins og þessi saga sýnir að við þessu er ekki eitt svar, engin ein töfralausn, og það sýna líka rannsóknir þeirra fræðimanna sem hafa helst fengist við að fást við þetta.

Ef við skoðum brautskráningarhlutfall og námsgengishlutfall, sem eru þær tvær aðferðir sem notaðar eru til að skoða brottfall og mæla brottfall, má sjá að brautskráningarhlutfall á Íslandi er fremur hátt en hins vegar er námsgengishlutfall lágt. Hvað merkir þetta? Jú, það merkir í raun og veru að margir ljúka námi en þetta sýnir ákveðna óskilvirkni í kerfinu, þ.e. að fáir ljúka á tilskildum tíma, sem er það sem námsgengishlutfallið mælir. Margir taka sér mun lengri tíma til að ljúka námi og koma inn í skólana síðar á lífsleiðinni. Að sjálfsögðu getum við spurt hvað þetta merki fyrir hið opinbera kerfi, er það nægilega skilvirkt fyrir hið opinbera kerfi að fólk sé að fara inn og út úr námi? Þetta er ein lykilspurning.

Margar ástæður eru fyrir brottfalli. Hv. þingmaður vísaði í könnun sem gerð hefur verið á nemendum sem eru að koma inn í átakið Nám er vinnandi vegur, hvernig þeim vegnar. Hv. þingmenn þekkja þetta átak sem miðar að því að fá inn nemendur af atvinnuleysisskrá til að hefja aftur nám í framhaldsskóla. Við ákváðum að kanna þetta sérstaklega til að fylgjast með því hvernig átakið skilar sér, sem ég held að sé mjög mikilvægt. Annars vegar eru þetta nemendur yngri en 25 ára á vegum menntamálaráðuneytis og atvinnulausir á vegum Vinnumálastofnunar sem mynda þetta úrtak og kannanir sýna fram á að samanlagt brotthvarf er 21,37%. Við getum deilt um hvort þetta er hátt eða lágt í ljósi hins almenna brottfalls en það má ljóst vera að þetta er allhátt að mínu viti, 21,37%.

Síðan voru nemendur spurðir út í ástæður og það er ljóst, eins og hv. þingmaður nefndi, að ýmislegt spilar þar inn í. Það eru félagslegar aðstæður og kom mér satt að segja á óvart líka að sjá hlutfall þeirra sem nefndu sérstaklega andlega sjúkdóma sem hefðu hindrað þá í raun og veru í að halda áfram námi. Þarna þurfum við greinilega að huga að stuðningskerfinu við nemendur, hvernig við búum að nemendum félagslega, hvaða stuðning við veitum þeim. Og kannski ekki bara nemendum, heldur unga fólkinu í landinu.

Fleiri aðstæður voru nefndar eins og nám við hæfi, svo ég vitni til þess, fjárhagsstaða o.fl. Þarna eru margir samverkandi þættir. Ég leyfi mér að segja að ég tel að þær aðgerðir sem hefur verið ráðist í undanfarin ár, eins og hin nýju lög frá 2008, nýjar námskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, skapi góðan grunn til að takast á við brotthvarfið og smæð skólakerfisins getur aðstoðað okkur við að þróa aðgerðir til þess að mæta brotthvarfi.

Við getum líka minnst á það sem OECD gerir í sinni skýrslu að margt er jákvætt hér. Þar er nefndur árangur í PISA sem er yfir meðallagi OECD-landa, að hlutfallslega miklu fé sé varið til menntamála en það er hins vegar mismunandi milli skólastiga og að því þarf að huga, og að hér á landi ríki almennt jafnrétti til náms sem talinn er kostur á kerfinu.

Fulltrúar OECD nefna sérstaklega eftirfarandi fimm atriði: Í fyrsta lagi gæði skólastarfs og kennslu og þeir nefna þar sérstaklega starfsnámið. Ég ætla kannski að koma aðeins nánar að því í síðara innleggi mínu, en ég held að þar þurfum við að kljást meðal annars við viðhorf samfélagsins, eins og hv. málshefjandi nefndi.

Í öðru lagi stöðu kennara sem fagstéttar og grunn- og símenntun þeirra. Þetta er að mínu viti lykilatriði og þetta er ekki bara íslenska reynslan, þetta er reynslan um allan heim. Það skiptir máli að efla kennara sem fagstétt og að þeim sé búið þannig að þeir geti drifið áfram skólaþróun inni í sínum skólum.

Í þriðja lagi er félagsleg staða, líðan nemenda og undirbúningur þeirra fyrir framhaldsskólanám. Þar held ég að við þurfum líka að horfa á samspil unglingastigsins í grunnskólum upp í framhaldsskólann. Allar vísbendingar eru um að við getum í raun og veru greint hvernig nemendur sem standast unglingastigið muni koma út í framhaldsskóla. Við þurfum því að horfa á þessi skólastig saman.

Í fjórða lagi er vinnumarkaðurinn. Það er ákveðið einkenni að menntun er ekki virt þegar kemur að aðgangi að störfum og nemendur eru leiddir út á vinnumarkað án þess að hafa lokið námi.

Í fimmta lagi er almenn (Forseti hringir.) stýring, þ.e. að styðja betur við skóla og skýra ábyrgð þeirra hvað varðar brotthvarf.