140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[15:50]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir þau orð sem hv. þingmaður og málshefjandi Skúli Helgason fór með áðan, þetta er eitt stærsta verkefnið sem við eigum að taka á í íslensku samfélagi núna, þetta með skólakerfið. Því miður höfum við verið nokkuð þjóðernisrembingsleg í þessari umræðu í gegnum árin, við höfum talað um að íslenska skólakerfið sé svo æðislegt og við séum svo agalega vel menntuð o.s.frv. Svo stenst það ekki þegar maður fer að kroppa aðeins í glansmyndina. Meðal annars sýna PISA-rannsóknirnar að við stöndum okkur ekki vel með íslenskt skólakerfi, því miður. Þetta brottfall er alveg út úr kortinu miðað við brottfall á Norðurlöndunum og hér hefur ríkt að vissu leyti ákveðið menntasnobb. Allt of margir fara í bóknám á kostnað verk- og starfsnáms þannig að það þarf að gera að mínu mati kerfislægar breytingar til að taka á þessum vanda.

Hér hefur komið fram að ástæðurnar sem ungmenni gefa um brottfallið eru þunglyndi og kvíði, fjárhagsáhyggjur og athyglisbrestur. Á sama tíma slær Ísland algjört met í greiningu á athyglisbresti og lyfjanotkun við athyglisbresti. Það er svo margt sem stangast á í þeim upplýsingum sem við fáum þannig að maður gæti haldið að hér væri allt í lukkunnar velstandi, við þjónustuðum mjög vel skólakerfið og ættum að fá góðan árangur út úr því. Staðan er ekki þannig. Ég tel því miður að við höfum látið þessi mál sitja of lengi á hakanum. Við tökum svona umræðu við og við en því miður skeður allt of lítið í framhaldinu. Það er spurning hvort hægt sé að taka betur á þessu með einhverjum hætti, styrkja stefnumótun í menntamálaráðuneytinu og að þingið komi betur að henni. Ég held að við öll í þessum sal höfum miklar áhyggjur af stöðunni. Skólakerfið virkar ekki eins og við vildum að það gerði og úrbóta er þörf. Við höfum ágætiskennara en það er eitthvað kerfislægt að, það hlýtur að vera fyrst árangurinn er ekki betri en þetta.