140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[15:52]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu, þakka hv. málshefjanda, Skúla Helgasyni þingmanni. Í góðærinu var mikil pressa á ungmenni að vinna með námi. Ég fylgdist með ansi mörgum ungmennum fara að vinna meira og meira og vera minna og minna í skóla. Sú pressa er ekki lengur til staðar en ég held að þróunin hafi ekki endilega snúist við eins mikið og við vildum.

Það er eitt sem mig langar að nefna, lögræðisaldurinn. Við erum með skólaskyldu til 16 ára aldurs en samkvæmt lögum eru ungmenni börn til 18 ára aldurs. Mér finnst að það eigi að vera skólaskylda til 18 ára aldurs. Aðeins ef það er skólaskylda getum við í raun stýrt framhaldsskólunum þannig að þeim sé skylt að mæta hverjum einasta nemanda þar sem hann stendur. Það er í samræmi við lög. Skólakerfið þarf að vera sveigjanlegra þannig að þeir sem eru með einhverjar sérþarfir eða hreinlega líður þannig að þeir vilji ekki vera í skóla geti fundið sér farveg þar og dafnað.

Verkefnið Nám er vinnandi vegur er afskaplega jákvætt en mig langar að benda á að þegar við erum að búa til sérúrræði, í þessu tilfelli fyrir atvinnulaust fólk sem skortir menntun og vill mennta sig, erum við að setja atvinnulaust fólk skör hærra en til dæmis fólk í láglaunastöðum sem á eftir nokkrar einingar í stúdentspróf og hefur hreinlega ekki efni á að taka þær í kvöldskóla. Þetta finnst mér við þurfa að passa líka. Ég er nýbúin að setja á heimasíðuna mína sögu ungrar konu sem getur ekki klárað framhaldsskóla af því að hún hefur bara ekki efni á því.