140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[16:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta er fín umræða en mér finnst ég þó vera að upplifa hér Groundhog Day aftur og aftur. Það eru þrjú atriði sem ég ætla að nefna hér.

Brottfall er mikið hér á landi og það var líka milli 2000 og 2010. Þá fórum við, allir flokkar á þingi, í fjögurra ára vinnu til þess að vinna að nýjum lögum. Öll nýju lögin voru samþykkt af öllum flokkum. Markmið þeirra var að:

1. vinna gegn brottfalli,

2. efla iðn- og starfsnám,

3. auka skilvirkni og sveigjanleika kerfisins.

Það var samþykkt af öllum flokkum hér á þingi.

Hvað ákvað ríkisstjórnin að gera? Hún ákvað að fresta hluta af þessum lögum, einmitt þeim hlutum sem eflt hefðu baráttu gegn brottfalli, einmitt að þeim hlutum sem byggt hefðu upp iðn- og starfsnám. Það ákvað ríkisstjórnin að gera og klippa á sveigjanleika á grunn- og framhaldsskólastigi.

Það vissu allir um kostnaðinn í upphafi. Að mínu mati er alveg ljóst að hefðum við farið út í þá fjárfestingu strax í upphafi en ekki frestað henni um nokkur ár hefði verið gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt. Það hefði verið fjárfesting í menntun til lengri tíma litið og stuðlað að baráttu gegn brottfalli. Að fresta því var að mínu mati, með fullri virðingu, eins og að pissa í skóinn sinn.

Í öðru lagi vil ég beina sjónum mínum að kennurum og háskólamenntun.

Ég tel að háskólarnir sem bjóða upp á kennaramenntun verði að gera grein fyrir því hvort þeir séu að móta kennaramenntun sem mæti virkilega sérþörfum og stuðningi sem við þurfum augljóslega á að halda innan skólasamfélagsins.

Það eru allir sammála um að við eigum að styðja kennara, að við þurfum að efla starfsumhverfi þeirra og bæta starfskjör, en þá verða hagsmunasamtök kennara líka að spyrja sig að því: Hefur aðferðafræði okkar skilað því sem við óskum öll eftir; betra umhverfi og betri starfskjörum til kennara?

Í þriðja lagi vil ég beina sjónum mínum að atvinnulífinu.

Atvinnulífið hefur nú meiri möguleika en nokkru sinni fyrr til að móta ákveðna þætti í skólakerfinu með starfsgreinaráðunum. Ég spyr: Hvað er atvinnulífið að gera (Forseti hringir.) í starfsgreinaráðunum? Hvað er atvinnulífið til dæmis að gera með aðkomu sinni að stærsta iðn- og starfsmenntaskóla (Forseti hringir.) landsins, sem er Tækniskólinn?

Ég tel að þar verðum við öll að líta í eigin barm. (Forseti hringir.) Tækin eru til staðar, frú forseti, og þau verðum við að nýta (Forseti hringir.) til að fara í baráttuna gegn brottfalli úr skólum.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til þingmanna að þeir fylgi klukkunni og haldi sig innan tímamarka. Sumir fara lengra fram yfir ræðutímann en aðrir, fá þar af leiðandi fleiri bjöllustig.)