140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[16:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa brýnu og þörfu umræðu og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir hennar ágætu svör.

Mig langar að taka undir með hv. þm. Davíð Stefánssyni sem kom að mikilvægasta punktinum í umræðunni, sem er viðhorfsbreyting. Ég held að það sé akkúrat það sem við þurfum, ekki bara úti í samfélaginu heldur líka á Alþingi. Hér hafa verið nefnd mörg dæmi um hvað sé að, en eitt fannst mér vanta og það er nokkuð sem við eigum við að glíma á Alþingi, það er agaleysi. Það er orð sem varla hefur mátt minnast á í skólum landsins í langan tíma og kannski eru skólarnir farnir að sinna miklu fleiri verkefnum en þeir ættu í rauninni að gera. Skólar eiga að mennta börnin okkar. Verkefnin eru að vísu margbreytileg í síbreytilegum heimi en ég held að það sem ungir drengir þurfi fyrst og fremst að fá sé agi. Það er ekki svo langt síðan opna átti alla skóla, allar skólastofur voru opnaðar upp á gátt. Nú skilst mér að verið sé að hverfa frá þeirri stefnu. Ég nefni það sem dæmi.

Annað dæmi er að sérkennarar voru fengnir inn í bekkina til að kenna þeim sem þurftu á sérkennslu að halda. Áður voru þeir nemendur teknir út úr bekknum og kennt annars staðar. Ég veit það bara af reynslu móður minnar sem er sérkennari til 40 ára að það var stórt og mjög vanhugsað skref.

Ég held að við þurfum að tala saman, breyta viðhorfi til náms, auka aga, ekki bara í samfélaginu og á þingi, heldur líka í skólum landsins og þora að (Forseti hringir.) ræða það á opinskáan hátt.