140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[16:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta er mikil og merk umræða og jafnframt nauðsynleg. Við fáum því miður oft neikvæðar fréttir af skóla- og menntamálum þjóðarinnar. Mig langar að velta upp hlutum sem ég hef ekki heyrt talað um hér í dag og það er að skoðað verði ítarlega að nálgast menntun með öðrum hætti en við höfum gert hingað til en gamla aðferðin hefur gert það að verkum að hinn svokallaði námsleiði gerir mjög mörgum krökkum og unglingum erfitt fyrir að sitja lengi á skólabekk. Sú aðferðafræði sem notuð er er þannig að kennsla í einstökum fögum er slitin sundur þannig að áfangar teygjast yfir heilu missirin og mörg fög eru kennd í einu. Þá losnar um samhengið í náminu og áhugi krakkanna dvínar.

Að hluta til snýst þetta um þörf á því að hafa kennara í fullri vinnu allt árið frekar en hversu vel nemendunum gengur að læra. Hér þarf að leita nýrra leiða og athuga hvort aðrar aðferðir mundu ekki henta betur. Þar nefni ég fyrirmynd eins og til dæmis hina svokölluðu Waldorfskóla þar sem eitt til tvö fög eru tekin úr missirisumhverfinu og kennd samfleytt alla daga vikunnar í kannski sex til átta vikur eftir þörfum hvers námskeiðs.

Það viðheldur áhuganum hjá krökkunum. Það viðheldur dínamíkinni í kennslunni sem þarf að vera til staðar. Við þekkjum það öll að sitja í dönskutíma missiri eftir missiri, ár eftir ár eftir ár og hafa enga hugmynd til hvers í andskotanum við erum þarna. Það er hægt að laga ef áhugi er fyrir hendi. Áhuginn á námsefninu helst miklu betur og innihald námsefnisins situr mun betur eftir en ella ef nemendur eru í faginu alla daga vikunnar í lengri tíma í senn.

Það er margt annað sem spilar inn í brottfall úr skóla en námsleiði. Það eru áreiti, það eru peningar, ríkidæmi sem verið er að bjóða fólki ef það gerist knattspyrnumenn. Ungir strákar segja: Ég þarf ekkert að læra dönsku, ég ætla bara að vera fótboltahetja þegar ég verð stór.

Það eru alls konar svoleiðis atriði sem spila inn í og við þurfum með einhverjum hætti að reyna að nálgast og takast á við vandamálið. Ég mæli með því að hæstv. menntamálaráðherra ráðfæri sig til dæmis við Andra Snæ Magnason (Forseti hringir.) sem hefur verið með mjög áhugaverðar nálganir og hugsun í þessum málum sem gætu örugglega komið öllum til góða.