140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[16:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég minni á það, af því að það er ein af ábendingum OECD, að horfa þurfi sérstaklega á gæði náms og ekki síst starfsnáms, að verið er að vinna að þeim málum einmitt út frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið, þannig að við megum ekki gera lítið úr þeirri vinnu. Má þar nefna vinnustaðanámssjóð upp á 150 milljónir, sem lengi hefur skort, og þróunarsjóð upp á 300 milljónir til að þróa námsbrautir sem taldar eru henta fleirum. Við skulum líka átta okkur á því að gríðarleg stefnumótunarvinna hefur verið unnin undanfarin þrjú ár í samvinnu við starfsgreinaráðin með nýrri starfsgreinanefnd. Ég held að við munum sjá gríðarlega grósku á því sviði. Ég skynja það tvímælalaust úr því umhverfi að mjög mikið er að gerast í þeim efnum. En það breytir því ekki að samkvæmt nýlegri doktorsrannsókn Stellu Blöndal líkar 40% 15 ára grunnskólanemenda betur við verklegt nám en bóklegt, en samt sem áður velja 90% stúlkna og 80% drengja bóklegt nám. Það er ekki af því að ekki sé verið að vinna gríðarlega þróunarvinnu og margt sé í boði. Þarna þurfum við að eiga við ákveðin samfélagsviðhorf.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi mjög áhugavert atriði: Við eigum að velta því fyrir okkur, af því að við segjum yfirleitt að við viljum öll efla menntun: Metur íslenskt samfélag menntun í raun? Metum við menntun í raun? Metur atvinnulífið menntun í raun þegar það lætur hana ekki ráða þegar ráðið er í störf eða þegar greidd eru laun? Eigum við kannski að velta því fyrir okkur hvaða gildi samfélag okkar hefur í raun og veru í þessum málum? Ég held að það væri mjög áhugaverð umræða.

Við sjáum það líka þegar við skoðum viðhorf unglinga okkar að þegar kannaðir eru til að mynda draumar um efnisleg gæði og áhugi á efnislegum gæðum skora íslenskir unglingar miklu hærra en sambærilegur hópur á Norðurlöndum sem horfa meira til menntunar sem markmiðs í sjálfu sér. Við ættum að velta því fyrir okkur hvað það segir okkur um gildin í samfélagi okkar.

Í þessum efnum er ekki ein patentlausn, eins og raunar allir þeir fræðimenn sem fengist hafa við þetta segja. Að sjálfsögðu höldum við áfram að vinna að aðgerðum. (Forseti hringir.) Þar skiptir máli skólaþróun, öflugir kennarar og allt það sem við höfum nefnt, en við þurfum líka að velta fyrir okkur gildismatinu.