140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

fundarstjórn.

[16:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Já, ég tek undir að þetta eru mikil tíðindi sem skipta heimilin og fjölskyldurnar í landinu náttúrlega miklu máli. Ég rek augun í það að hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, er staddur hér í salnum. Það væri mikilvægt að heyra sjónarmið hans um að nefndin komi sem fyrst saman.

Ég tek undir það sem þingmenn hafa sagt hér í ræðustól á undan mér. Ég vil vekja athygli á því og taka undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur að meiri hluti þingsins ber ábyrgð á þessu. Þetta er klúðursmál hjá ríkisstjórninni. Ég held engu að síður að við sem erum í stjórnarandstöðu verðum að hefja okkur yfir þetta plan. Við verðum öll að reyna að sameinast um að koma frá okkur almennilegum lögum sem eru í samræmi við þarfir heimilanna og fjölskyldnanna í landinu og í samræmi við það sem Hæstiréttur Íslands hefur nú þegar kveðið sinn dóm um. (Gripið fram í: Setja lögleg lög.)