140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

fundarstjórn.

[16:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að sjá verði til þess að hægt verði að ræða þetta mál sem allra fyrst í sölum Alþingis, þetta dýra klúður hæstv. ríkisstjórnar og alla þætti þess máls. Eins og ég nefndi var ítrekað búið að vara við þessu máli og gagnrýna vinnubrögðin í kringum það. En þetta er kannski skólabókardæmi um það þegar ríkisstjórn keyrir mál í gegn á örskotsstundu á nokkrum dögum eins og í þessu tilfelli.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þessi vinnubrögð, þetta svakalega klúður hæstv. ríkisstjórnar kemur með beinum hætti niður á fjölskyldunum í landinu, stundum svo alvarlega að þær hafa misst eignir sínar.

Virðulegi forseti. Við þurfum að fá ýmsa aðila á fund (Forseti hringir.) hv. efnahags- og viðskiptanefndar en við verðum líka að fá tækifæri til að ræða þetta í þessum sal sem allra fyrst. Það hlýtur að vera uppi krafa (Forseti hringir.) um afsögn ríkisstjórnar í tengslum við málið.