140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

fundarstjórn.

[16:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar að hafa brugðist vel við þeirri ósk okkar um að kallaður verði saman fundur í efnahags- og viðskiptanefnd eins fljótt og hægt er. Nú liggur fyrir að það verður gert núna klukkan fimm og þar með verður þingfundi frestað.

Það eru gífurlega mikil tíðindi sem þetta mál felur í sér. Ýmsar spurningar vakna. Þessi dómur svarar auðvitað ýmsum spurningum sem lúta að því hvernig átti að vaxtareikna þessi umræddu lán en vekur líka upp spurningar um stöðu þeirra sem ekki eru með erlend lán. Sú réttlætisspurning kemur upp í tengslum við það sem óhjákvæmilegt er með einhverjum hætti að takast á við, þannig að mér sýnist að við séum nú komin býsna langt frá því sem menn töldu að þeir væru komnir að, þ.e. að ljúka endurskipulagningu fjármálafyrirtækja og einstaklinga. Við erum greinilega óravegu frá því. Dómurinn setur þetta mál allt saman í algjörlega nýtt, splunkunýtt ljós.