140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

fundarstjórn.

[16:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ljóst er að hér hafa orðið tímamót í dómum Hæstaréttar varðandi lagasetningu frá Alþingi. Alþingi ber ábyrgð á lagasetningu. Ríkisstjórnir bera ábyrgð á frumvörpum. Þessi niðurstaða Hæstaréttar er ljós, hún er ívilnandi fyrir fólkið í landinu. Hún gæti kallað á skaðabótakröfu af hálfu fjármálafyrirtækja á hendur ríkissjóði. Ég er sammála því sem þarf að gera, að ræða þarf málið vel og vendilega. En ég beini þeim tilmælum til virðulegs forseta sem og okkar þingmanna að við spörum stóru orðin. Þetta er áfellisdómur yfir þinginu og afgreiðslu okkar hér, en spörum stóru orðin þar til við höfum í hendi dóminn og getum rætt þetta á þeim forsendum sem okkur ber sem löggjafanum í þessu landi.