140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

fundarstjórn.

[16:28]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil eiginlega gera þau að mínum, orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sem talaði áðan. Það er merkilegt að hlusta á hvernig menn hafa tjáð sig um þetta núna á síðustu mínútum því að þessi dómur Hæstaréttar hefur ekki enn verið birtur. (Gripið fram í: Jú, jú.) Hann er ekki á heimasíðu Hæstaréttar. (Gripið fram í: Hann er þarna.) Hann var það ekki fyrir tveimur mínútum, frú forseti, því ég var beinlínis að reyna að ná í dóminn til að geta komið hingað í umræðuna, þannig að eftir öðrum leiðum hafa menn orðið sér úti um dóminn en hann er ekki birtur á heimasíðunni enn þá. Ég held því að menn ættu að spara stóru orðin.

Ég tel það hins vegar mjög ábyrg viðbrögð hjá hv. formanni efnahags- og skattanefndar að kalla þegar til fundar um málið og reyna að fara yfir það því að eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns er þetta fyrst og fremst áfellisdómur yfir lagasetningu frá Alþingi Íslendinga og umhugsunarefni fyrir þingið.