140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu um framtíð innanlandsflugsins. Fyrst að því sem hann vék að síðast varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar, þá er það svo að í öllum stjórnmálaflokkum eru skiptar skoðanir um það mál, það á vissulega við í mínum flokki, ekki síst hér í Reykjavík. En hann spyr um afstöðu mína sem samgönguráðherra. Ég hef aldrei farið leynt með þá afstöðu mína að ég telji það grundvallaratriði að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sínum stað.

Í ljósi umræðunnar er rétt að hafa í huga að ef Reykjavíkurflugvöllur yrði fluttur til Keflavíkur, sem nú um stundir er eini valkosturinn í stöðunni, því við erum ekki aflögufær um gerð nýs flugvallar, hefði það gríðarleg áhrif á innanlandsflugið ef það legðist hreinlega ekki af. Það yrði í andstöðu við þá stefnu sem ég tel mjög mikilvægt að framfylgja, að fá betra jafnvægi í flutningum á sjó, á landi og í lofti en nú er.

Ég tel mjög mikilvægt að þarna sé jafnvægi á milli og grundvallaratriði að mínum dómi er að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sínum stað eigi svo að verða. Ég vísa hins vegar jafnframt á tillögu til þingsályktunar sem liggur fyrir þinginu þar sem talað er um mikilvægi þess að úttekt verði gerð á framtíð áætlunarflugs hér innan lands og lokið viðræðum um framtíð flugvallarins og búið svo um hnúta að hann geti þjónað innanlandsfluginu á fullnægjandi hátt á komandi árum.

Síðan að hinu sem er meginuppistaðan í málflutningi hv. þingmanns en það eru álögur á flugið sem hann segir gríðarlegar og vega að fluginu. Nú er það svo að á undanförnum þremur til fjórum árum hefur heldur dregið úr innanlandsflugi á Íslandi. Á síðasta ári jókst það um 4,8%, þannig að við erum svona heldur á uppleið þó að við séum í miðri kreppu.

Annað er að við skulum forðast miklar upphrópanir í þessum efnum. Þegar farið er að skoða þau gjöld sem hér eru til umræðu, og þá erum við sérstaklega að tala um lendingargjöldin og farþegaskattana, hafa þau í reynd ekki hækkað á undanförnum árum. Þannig eru lendingargjöldin enn undir því sem þau voru á árinu 1998. Ef við skoðum þau með hliðsjón af verðbólgu hafa þau hækkað um 83% frá árinu 1998, á sama tíma og vísitalan hefur hækkað um 112%. Við skríðum hins vegar yfir þessi mörk í apríl þegar hækkun verður og síðan aftur síðar. Svipað á við um farþegagjöldin þó þar séum við núna ívið yfir verðlagsþróuninni, en þó á svipuðu róli og við vorum árið 2004.

Hins vegar er það svo, ég legg áherslu á það, að þegar við erum komin yfir á mitt næsta ár eru þessi gjöld hærri en þau hafa verið á undangengnum árum, það er alveg rétt. Ástæðan er sú að við erum að reyna að ná í fjármagn til að standa straum af kostnaði við viðhald flugvallanna. Isavia vildi fá milljarð, taldi milljarð nauðsynlegan til að viðhalda flugvöllunum og ráðast í nauðsynlegar endurbætur, en með þessari gjaldtöku erum við að ná í um 200 milljónir á ári.

Ég legg áherslu á að verðlagsþróun og þessi þróun umræddra gjalda er ekki í samræmi við þær miklu upphrópanir sem menn hafa haft í frammi. En við þurfum að vera opin fyrir þeim áhrifum sem verðlagið hefur á notkun flugsins. Við þurfum að gera það. Þar kunnum við að vera komin á ýtrustu mörk.

Ég tek mjög alvarlega varnaðarorð sem hafa komið (Forseti hringir.) frá flugrekendum og einnig frá hv. málshefjanda í þessum sal, þó að við skulum öll sameinast um að forðast óþarfar upphrópanir.