140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu sem og hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu þar sem hann tók undir það að sér þætti vera komið að ákveðnum mörkum hvað varðar verð á innanlandsflugi. Það er orðinn lúxus, og ekki á allra færi, að kaupa sér flugfar frá Egilsstöðum þar sem kostar 38.300 kr. að fljúga fram og til baka. Það getur enginn venjuleg fjölskylda leyft sér þann lúxus eins og staðan er í dag. Þess vegna hefur komið fram að hætta er á því að það dragi úr eftirspurn eftir innanlandsflugi.

Stjórnarformaður Isavia sagði á dögunum að ef fram héldi sem horfir varðandi gjaldahækkanir yrði að fækka leiðum í innanlandsfluginu. Þá veltir maður fyrir sér flugleiðinni Þórshöfn –Vopnafjörður. Hvert er framtíðarfyrirkomulag þeirrar flugleiðar ef halda á áfram að leggja svona miklar álögur á þessa atvinnugrein?

Við þurfum þvert á flokka að fara yfir þessi mál. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, við þurfum sérstaklega að fara yfir það hvernig verð á farmiðum hefur verið að þróast, vegna þess að það er komið fram úr öllu hófi.

Ég vil síðan lýsa yfir ánægju með þann þverpólitíska stuðning sem Reykjavíkurflugvöllur virðist hafa hér, að hann eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni. Ef menn ætla að flytja Reykjavíkurflugvöll burt úr höfuðborginni þurfa menn að fara að skoða aðra kosti, til að mynda er varðar heilbrigðisþjónustu í landinu. Það er algjörlega óásættanlegt að landsbyggðin hafi ekki aðgang með sem skjótustum hætti að Landspítala – háskólasjúkrahúsi þegar kemur að mikilvægum öryggismálum.

Ég vara við því og ég hvet til þess að við drögum úr álögum á innanlandsflugið vegna þess að það mun að öllu óbreyttu minnka eftirspurnina. Þar af leiðandi getum við horft upp á það að flugleiðum verði fækkað og þá (Forseti hringir.) er framtíð innanlandsflugsins í verulegri hættu.